„Svæðið er allt að fara í rúst“

Formaður landeigendafélagsins við Seljalandsfoss hefur áhyggjur af slysahættu og umhverfisskemmdum …
Formaður landeigendafélagsins við Seljalandsfoss hefur áhyggjur af slysahættu og umhverfisskemmdum á svæðinu við fossinn. mbl.is/Rax

Kristján Ólafsson, bóndi á Seljalandi og formaður landeigendafélagsins við Seljalandsfoss, segir ekki hafa annað komið til greina en að hefja gjaldtöku við fossinn svo unnt sé að standa straum af kostnaði við innviðauppbyggingu og öryggisgæslu. Honum er ekki kunnugt um annað en að viðbrögð gesta vegna gjaldtökunnar hafa verið góð síðan hún hófst á föstudag.

„Það hefur verið sótt um til framkvæmdasjóðsins og verið hafnað tvö ár í röð og svæðið er allt að fara í rúst. Ég er fæddur hérna og upp alinn og þarna þarf orðið bara mann til að vera við öryggisgæslu og beina fólki á réttar brautir þarna,“ segir Kristján í samtali við mbl.is.

Það kosti pening að byggja upp aðstöðu og standa straum af kostnaði við öryggisgæslu og hafi landeigendur og sveitafélag því séð sig knúin til að hefja gjaldtöku. „Það var bara ekkert annað í boði að okkar áliti.“

Hann segir allt of algengt að fólk flækist utan brauta og klifri brekkur í grennd við fossinn sem hafi í för með sér mikla slysahættu og skemmdir og hafa þegar orðið alvarleg slys þarna. Slíkt kalli á að starfsmaður sé á svæðinu sem leiðbeini fólki um réttar brautir. Þá sé öll aðstaða á svæðinu komin að þolmörkum og erfitt sé fyrir lítið sveitafélag með aðeins 1.700 íbúa að standa straum af kostnaði en á ári leggja um 600-700.000 gestir leið sína að fossinum að sögn Kristjáns.

Brugðist við bráðavanda með gámi

„Það er bara hörmung að horfa upp á þetta og líka bara hvernig svæðið er allt að fara,“ segir Kristján. „Við bara höfum ekki krónu í eitt né neitt til að byggja þetta upp en við gerum þetta á ódýrasta máta,“ bætir hann við. Til að mynda hafi salernisaðstöðu verið komið upp í gámi til að bregðast við bráðavanda á svæðinu.

„Sveitafélagið hefur alveg séð um rekstur á þessu svæði, það þarf að þrífa klósett og þeir hafa séð um að borga það allt og allan tilkostnað sem er ekkert smá,“ segir Kristján. Nefnir hann sem dæmi að yfir eina helgi hafi farið um tveir og hálfur kílómetri af salernispappír.

„Það er bara ekki hægt að ætlast til f ekkert kemur á móti að þeir geti bara staðið undir þessari þjónustu. Hvað þá við landeigendur, það er bara ekki hægt,“ segir Kristján. Spurður um viðbrögð ferðalanga síðan gjaldheimta hófst á föstudaginn segir Kristján þau hafa verið mjög góð.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert