Hundarnir njóta nuddsins

Berglind er að læra að verða hundanuddari í fjarnámi í …
Berglind er að læra að verða hundanuddari í fjarnámi í bandarískum skóla. Hún segir hundanudd ekki vera svo frábrugðið nuddi á manneskjum þar sem hundar hafi flesta sömu vöðva og menn. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Þetta þarf allt að vera gert á forsendum hundsins,“ segir Berglind Guðbrandsdóttir, nemi í hundanuddi, í samtali við Morgunblaðið.

„Þetta byrjaði nú allt þegar hundurinn minn tognaði og ég fór með hann í nudd hérna heima. Mér fannst algjörlega magnað hvað þetta hafði mikil áhrif á hundinn og langaði að læra þetta sjálf. Þetta hljómaði eins og eitthvað sem mér þætti skemmtilegt,“ segir Berglind og bætir við að hún hafi mikinn áhuga á hundum, en eftir því sem Berglind best veit þá er einungis einn lærður hundanuddari starfandi á Íslandi.

Snýst um tengslamyndun

Berglind segir hundanudd ekki vera svo frábrugðið nuddi á manneskjum. „Þetta byggist mjög mikið á því sama þar sem hundar hafa flesta sömu vöðva og menn,“ segir hún og bendir á að aðalkennarinn hennar í nuddinu sé bæði hunda- og mannanuddari. „Nudd á hundunum er þó aðeins mýkra og það þarf náttúrlega að nálgast þá allt öðruvísi en menn. Það er ekki hægt að hlusta á hvað hundurinn hefur að segja heldur þarf að læra á hann. Maður þarf að byrja á að kenna hundinum að elska nuddið áður en maður fer alla leið,“ segir Berglind og bætir við að fyrstu skiptin fyrir hund í hundanuddi snúist mikið um tengslamyndun og traust.

Gott fyrir alla hunda

Spurð hvort ekki sé flókið að læra að nudda mismunandi hundategundir svarar Berglind: „Í grunninn er þetta allt það sama, en þeir geta þó oft verið með mjög ólíka beinauppbyggingu. Sömuleiðis eru mismunandi tegundir gjarnar á meiðsli og vöðvabólgu á ákveðnum stöðum eftir því hvernig þeir eru byggðir.“

Hvernig er hægt að vita hvort hundurinn þarf nudd?

„Sumir sýna það með því hvernig þeir beita sér á meðan aðrir sýna aldrei hvenær þeim er illt og því þarf að láta dýralækninn fylgjast með vöðvum og öðru slíku þegar farið er með hundinn í skoðun,“ segir Berglind og bætir við að það sé gott fyrir alla hunda að koma í nudd. „Sama hvort þeir eru með vöðvabólgu eða ekki. Það er gott fyrir þá að læra snertingu og síðan finnst þeim bara svo gott að fara í nudd alveg eins og mannfólkinu,“ segir Berglind og hlær.

Hundanuddarinn tekur eitt ár

Berglind hefur verið að læra hundanudd í fjarnámi í skóla í Bandaríkjunum sem nefnist Chicago School of Canine Massage. Að hennar sögn leggur skólinn mikla áherslu á líðan hundsins og tekur námið eitt ár.

Berglind hefur einnig verið að læra hundaþjálfun og atferlisfræði í fjarnámi í öðrum bandarískum skóla sem nefnist The Academy for Dog Trainers. Það nám er til tveggja ára þar sem bæði er verið að kenna þjálfun hunda í alls konar kúnstum ásamt því að læra hvernig skal hjálpa hundum sem glíma við atferlisvandamál, til dæmis ef þeir eru mjög stressaðir, hræddir eða árásargjarnir.

Berglind vonast eftir að verða orðin fullgildur hundanuddari í byrjun næsta árs.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert