John Snorri kominn í síðustu búðir

John Snorri er kominn upp í fjórðu og síðustu búðir …
John Snorri er kominn upp í fjórðu og síðustu búðir á fjallinu hættulega. Ljósmynd/Lífsspor á K2

John Snorri Sigurjónsson var rétt í þessu að komast upp í fjórðu búðir á fjallinu K2. Dagurinn var langur og erfiður og nú er hópurinn að taka stöðuna á því hvenær skuli haldið áfram á toppinn. Fjórðu búðir eru þær síðustu á fjallinu. 

Leiðin úr þriðju búðum upp í þær fjórðu er mjög erfið og hættuleg. Hún tók um 12 klukkustundir og á köflum náði snjórinn upp í mitti. Hópurinn sem nú stefnir á toppinn samanstendur af 14 einstaklingum, 5 fjallagörpum og 9 sherpum.

Grafa þurfti niður um 1,5 metra til þess að koma tjöldum fyrir í búðunum. John Snorri er í tveggja manna tjaldi ásamt þremur öðrum. 

Hópurinn ætlar að byrja á því að næra sig og funda svo um framhaldið. Á eftir kemur í ljós hvort þau reyni að toppa á morgun eða föstudag. John Snorri fékk fregnir að því að vel er fylgst með ferðum hans hér og var hann gríðarlega ánægður að heyra það og bað fyrir góða kveðju.

Enn er hægt að heita á kappann á heimasíðu Lífsspors en hann safnar áheitum fyrir styrktarfélagið Líf. Öll áheit renna óskert til kvennadeildar Landspítalans.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert