2,2 milljarðar í viðhald fasteigna

Hólabrekkuskóli er meðal þeirra bygginga í eigu Reykjavíkurborgar sem eru …
Hólabrekkuskóli er meðal þeirra bygginga í eigu Reykjavíkurborgar sem eru á lista yfir helstu viðaldsverkefni. mbl.is/Árni Sæberg

Reykjavíkurborg mun í ár verja um 2,2 milljörðum til viðhalds fasteigna á vegum borgarinnar. Þar af fara 1.258 milljarðar í almennt viðhald fasteigna og 800 milljónir til sérstakra átaksverkefna í viðhaldi. 

Forgang fá verkefni sem varða öryggi notenda mannvirkjanna og heilsu þeirra. Fjármagn var aukið verulega í ár frá því sem verið hefur undanfarið, að því er fram kemur í svari Reykjavíkurborgar við fyrirspurn mbl.is um ástand og viðhald fasteigna borgarinnar.

Borgaryfirvöld drógu úr öllu viðhaldi í kjölfar efnahagshrunsins árið 2008 en að undanförnu hefur nokkuð verið fjallað um að hús­næði leik­skóla í Reykja­vík sé víða ábótavant og að bæði hús og lóðir þarfnist viðhalds og end­ur­bóta. 

Borgin á um 600 byggingar og er haldið utan um ástand þeirra og viðhaldsáætlanir á eignavef borgarinnar sem er almenningi aðgengilegur. Stór hluti þeirra er rekinn af skóla- og frístundasviði en sviðið rekur 64 leikskóla í borginni þar sem dvelja hátt í sex þúsund börn og 36 grunnskóla þar sem 14 þúsund börn og unglingar stunda nám.

Hér má sjá hvernig fjárframlög til almenns viðhalds vegna fasteigna …
Hér má sjá hvernig fjárframlög til almenns viðhalds vegna fasteigna Reykjavíkurborgar hafa þróast frá árinu 2010 eftir málaflokkum. Graf/Reykjavíkurborg

Í svari Reykjavíkurborgar við fyrirspurn mbl.is kemur fram að ástand fasteigna sé metið reglulega í tengslum við árlega fjárhagsáætlunargerð og að brugðist sé við ábendingum þess á milli. Umsjón með viðhaldi er sinnt frá fjórum hverfastöðvum undir handleiðslu fasteignastjóra á hverjum stað. Árlega er farið yfir ástand þeirra mannvirkja sem borgin rekur og verkefnum forgangsraðað eftir fjármagni sem er til umráða hverju sinni. 

94 forgangsverkefni í 48 fasteignum

Sem fyrr segir er áætlað að 800 milljónum verði varið til sérstakra átaksverkefna en alls verður á árinu ráðist í 140 verkefni í 89 fasteignum. Þar af fara um 620 milljónir til átaksverkefna í viðhaldi leik- og grunnskóla, alls 94 verkefni í 48 skólum. Sérstök áhersla er lögð á þéttingu ytra byrðis leik- og grunnskólahúsnæðis í Breiðholti.

Á kortinu má sjá skiptingu fjármagns og fjölda átaksverkefna í …
Á kortinu má sjá skiptingu fjármagns og fjölda átaksverkefna í grunn- og leikskólum niður á hverfiastöðvar borgarinnar. Kort/Reykjavíkurborg

Þá er gert ráð fyrir um 70 milljónum króna í málun leik- og grunnskóla en meðal helstu verkefna eru endurbætur og viðhald í Hólabrekkuskóla, Austurbæjarskóla, Ölduselsskóla, Klettaskóla og Grandaskóla.

Hlutfallsleg skipting fjárveitinga til átaksverkefna 2017 eftir málaflokkum.
Hlutfallsleg skipting fjárveitinga til átaksverkefna 2017 eftir málaflokkum. Tafla/Reykjavíkurborg

Ný heildarúttekt væntanleg

Auk árlegrar yfirferðar og ábendinga hafa jafnframt verið gerðar stærri heildarúttektir á ástandi fasteigna borgarinnar. Árið 2012 var verkfræðistofu falið að gera úttekt á ytra ástandi leikskóla þar sem teknar voru saman helstu niðurstöður úr úttektum á viðhaldsþörf.

Í skýrslu fyrir heildarúttektina sem gerð var árið 2012 kom fram að framkvæmdir í forgangsflokki 1 hafi aukist um 36% frá því í síðustu heildarúttekt sem gerð var þar á undan, árið 2007. Í forgangsflokk 1 falla fyrst og fremst byggingar þar sem viðhaldsþörf er komin á það stig að hún uppfyllir ekki rekstrarkröfur eða í það stefnir innan árs, ásýnd byggingar er óásættanleg eða hraði hrörnunar og niðurbrots mikill.

Var það skoðun skýrsluhöfunda að „viðhaldsskuldin” væri þegar orðin mikil og ástand væri orðið alvarlegt í allmörgum bygginganna. Þá var bent á í skýrslunni að hraði hrörnunar og niðurbrots stigmagnist eftir því sem byggingarhlutar skemmast meira. Þannig geti ástand byggingarhluta “stökkbreyst” ef viðhald er trassað. Því væri gríðarlega mikilvægt að tekið yrði af krafti á viðhaldsmálum á næstu árum.

Í ár er komið að næstu stóru heildarúttekt en í júní komu út drög að samantekt sem ber heitið „Kostnaðaráætlun viðhalds fasteigna í eigu Reykjavíkurborgar – áætlaður viðhaldskostnaður 2010 – 2030 með hliðsjón af aðferðum brunabótamats.“ Sú samantekt hefur ekki enn verið gerð opinber en hún verður að öllum líkindum tilbúin fljótlega að loknum sumarleyfum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert