Sekkur líklega á næstu klukkutímum

Varðskipið Þór fór til móts við rannsóknarskipið Árna Friðriksson í …
Varðskipið Þór fór til móts við rannsóknarskipið Árna Friðriksson í gærkvöldi í þeim tilgangi að sækja skipverjana en þá voru þeir ekki tilbúnir til þess að vera fluttir á milli. mbl.is/Þorkell Þorkelsson

Ólíklegt er að náist að bjarga bandarísku skútunni sem lenti í vandræðum suðvestur af landinu aðfaranótt miðvikudags. Skipverjarnir eru enn um borð í rannsóknarskipinu Árna Friðrikssyni en áætlað er að þeir komi í land í kvöld eða fyrramálið.

Ásgrímur Ásgrímsson, yfirmaður aðgerðasviðs Landhelgisgæslunnar, sagði í samtali við mbl.is að í gær hefði ekki verið unnt að draga skútuna í land vegna slæmra aðstæðna og sjólags. Þá segir hann allt eins líklegt að hún sökkvi ef stórt skip reynir að draga hana.

Skútan er í svo slæmu ástandi að hún er líkleg til þess að sökkva á næstu klukkutímum.

Ásgrímur segir að um tryggingarmál sé að ræða en ef skútan er tryggð getur verið að tryggingafélagið hafi samband við Landhelgisgæsluna um að hafa upp á henni. „En þá þarf að leita að henni og það getur verið erfitt að finna hana."

Fékk á sig brotsjó og fór heilhring

Landhelgisgæslan sendi í gær út textaskeyti sem varaði við rekaldi sem hefði verið hálft á kafi suðvestur af landinu. Samkvæmt skipstjórum rannsóknaskipsins fékk skútan á sig brotsjó og fór heilhring. Við það brotnaði mastrið og sjór komst í rafmagnsbúnað sem olli því að rafmagnslaust varð um borð.

Skipverjarnir á skútunni voru ekki með talstöð en þeir voru með handstöð sem Ásgrímur segir að drífi ekki nema fimm sjómílur. Þeir miðuðu út handstöðina og hefur það hjálpað að mörgu leyti. Mikill sjór var í skútunni og unnu skipverjar að því að ausa sjó úr henni þegar rannsóknaskipið kom að þeim.

Ásgrímur segir að skipverjarnir séu enn um borð í Árna Friðrikssyni. Varðskipið Þór fór til móts við þá í þeim tilgangi að sækja skipverjana og mættust skipin um klukkan 19 í gærkvöldi einhverjar 180 sjómílur suðvestur af landinu, „en þeir treystu sér ekki til þess að vera fluttir á milli.“

Segir hann að áætlað sé að setja þá í land við Sandgerði annað hvort í kvöld eða í fyrramálið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert