Þurfti aðstoð lögreglu vegna ósáttra farþega Herjólfs

Mikil óánægja hefur skapast vegna þess að fjórar ferðir Herjólfs …
Mikil óánægja hefur skapast vegna þess að fjórar ferðir Herjólfs voru felldar niður í gær. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Lögreglan var kölluð út í tvígang í dag á bryggjuna í Vestmannaeyjum vegna ósáttra farþega Herjólfs. „Það er engin ástæða til að hvíla stálið,“ segir Elliði Vignisson, bæjarstjóri Vestmannaeyja, og kallar eftir því að skipið verði látið sigla allan sólarhringinn þegar þörf krefur. Í gær voru felldar niður 4 ferðir og ekki voru settar á neinar aukaferðir.

Mikil reiði hefur skapast á meðal íbúa í Vestmannaeyjum og gesta vegna ferða Herjólfs. Að sögn Andrésar Þ. Sigurðssonar, hafnarstjóra Vestmannaeyjabæjar, urðu mikil læti í afgreiðslu Herjólfs í gær sökum þess að felldar voru niður fjórar ferðir. „Fólk er jafnvel að missa af flugi utan, þetta setur náttúrulega strik í reikninginn,“ segir Andrés.

Vilja að siglt verði allan sólarhringinn

Eimskip hefur ekki skipulagt aukaferðir vegna þeirra sem féllu niður og Elliði Vignisson, bæjarstjóri Vestmannaeyja, segir ástandið óþolandi og löngu komið út fyrir það að íslensk stjórnvöld geti litið fram hjá því. „Fólk er bara ofboðslega langþreytt á þessu ástandi,“ segir Elliði í samtali við mbl.is.

„Það er engin ástæða til þess að hvíla stálið, það þarf að hvíla áhöfnina en við viljum bara að skipinu verði siglt allan sólarhringinn ef þörf er á,“ segir Elliði. Á Facebook-síðu Herjólfs kom fram í svari við fyrirspurn að ef fella þyrfti niður ferðir í kringum Þjóðhátíð yrði hliðrað til. „Við íbúar sem búum hér allt árið þurfum líka á þessari þjónustu að halda, ekki bara einhverjar sparihelgar,“ segir Elliði.

Vildi mótmæla framkomu gagnvart Eyjamönnum

Kalla þurfti á aðstoð lögreglu í tvígang í dag vegna ósáttra farþega. Elliði hafði samband við annan þeirra sem ákvað að keyra bifreið sína um borð í skipið, þrátt fyrir að eiga ekki miða í þá ferð sem var að fara, og neitaði að fara frá borði.

„Hann staðfesti það bara við mig að með þessu hafi hann viljað mótmæla framkomu gagnvart Eyjamönnum og gestum þeirra,“ segir Elliði og tekur fram að maðurinn hafi verið yfirvegaður og lögregla hafi verið honum vinveitt.

Fólk verður af vinnu 

„Við búum einfaldlega við það að gestir okkar komast ekki, við komumst ekki og til þess að bíta höfuðið af skömminni þá getur þú ekki einu sinni flutt hingað hráefni sem matvælafyrirtæki í sjávarútvegi þurfa og fólk er sent heim og verður af vinnu vegna þessa,“ segir Elliði.

Rekstur Herjólfs er á vegum Eimskips en Elliði segir ríkan vilja til þess hjá Vestmannaeyjabæ að taka við rekstri ferjunnar. „Það er algjörlega óþolandi að vera ekki við borðið þegar okkar stærstu hagsmunamál eru rædd,“ segir Elliði að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert