Endurskoði afstöðu sína til United Silicon

Kísilmálmsmiðja United Silicon í Helguvík. Samtökin Andstæðingar stóriðju í Helguvík …
Kísilmálmsmiðja United Silicon í Helguvík. Samtökin Andstæðingar stóriðju í Helguvík biðla til hluthafa og fjárfesta að endurskoða afstöðu sína til frekari fjárveitinga til stóriðju. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Samtökin Andstæðingar stóriðju í Helguvík biðla til hluthafa, fjárfesta stóriðju og annarra hagsmunaaðila að endurskoða afstöðu sína til frekari fjárveitinga til stóriðju í Reykjanesbæ. Þetta kemur fram í tilkynningu sem samtökin sendu frá sér síðdegis.

Stóriðjan er í túnfæti bæjarins og leikskólar og skólar í aðeins 1,4 kílómetra fjarlægð, að því er segir í tilkynningunni. „Frá því að rekstur United Silicon hófst í nóvember síðastliðnum hafa íbúar í Reykjanesbæ ekki farið varhluta af mengun frá kísilverinu. Reykur hefur almennt umlukið verksmiðjuna og í norðanáttum leggst eiturefnamengun (ýmist súr eða lyktarlaus) yfir bæinn. Í öðrum vindáttum berst mengunin til Garðs og Sandgerðis. Þegar svo ber við eru margir tilneyddir til að halda sig innandyra og loka gluggum á heimilum sínum.“

Starfsemin sé í óþökk bæjarbúa, sem séu sumir farnir að finna fyrir breytingum á heilsufari til hins verra, og vel yfir þúsund kvartanir hafi borist Umhverfisstofnun.

„Er ekki mál að linni og komið að þeim tímapunkti að átta sig á því að kísilmálmverksmiðjur eru ekki eins frábær fjárfestingakostur og þið hélduð í upphafi. Það mun aldrei ríkja sátt um kísilver í Helguvík hjá íbúum sem þurfa að þola heilsutjón og verulega skert lífsgæði vegna starfseminnar,“ segir í tilkynningunni þar sem Festa lífeyrisjóður, Frjálsi lífeyrisjóðurinn, Eftirlaunasjóður flugmanna og Arion banki eru spurð hvort þau séu tilbúin að leggja orðspor sitt að veði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert