Á 194 km hraða og neitaði að stoppa

Lögreglan á Suðurlandi stöðvaði ökumann á 194 kílómetra hraða í nótt. Maðurinn neitaði að stöðva bílinn og var honum veitt eftirför. Þegar hann var loksins stoppaður á Selfossi var hann handtekinn. Hann er jafnframt grunaður um akstur undir áhrifum fíkniefna.

Lögreglan á Hvolsvelli varð upphaflega vör við manninn klukkan 02:30 í nótt vestur Suðurlandsveg. Samkvæmt upplýsingum frá Lögreglunni á Selfossi mældist maðurinn, sem er erlendur og ekki búsettur á Íslandi, þá á ríflega 150 kílómetra hraða. Lögreglan veitti manninum þá eftirför en maðurinn sinnti ekki stöðvunarmerkjum. Þess í stað jók hann hraðann svo að lögregluþjónarnir misstu af manninum.

Lögreglan á Selfossi fékk þá útkall og keyrði á móti manninum. Mældi hún þá hraða bifreiðarinnar á 194 kílómetra hraða. Gerði hún þá aðra tilraun til að stöðva manninn, en án árangurs.

Þegar maðurinn kom að Selfossi náði lögreglan að stoppa viðkomandi og handtaka hann. Maðurinn gisti í fangageymslu á Selfossi í nótt þar sem hann er jafnframt grunaður um akstur undir áhrifum fíkniefna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert