Erill hjá þyrlum Gæslunnar í gær

Lögregla óskaði eftir því að þyrla Gæslunnar svipaðist um eftir …
Lögregla óskaði eftir því að þyrla Gæslunnar svipaðist um eftir manninum sem féll í Gullfoss fyrir skömmu. Allar líkur eru taldar á því að hann sé látinn. mbl.is/Ómar Óskarsson

Þyrla Landhelgisgæslunnar, TF-GNÁ, sótti í gærkvöldi veikan skipverja um borð í erlendan togara í grænlenskri lögsögu. Þyrlan kom við á Ísafirði til að taka eldsneyti en þar sem um langa vegalengd var að ræða var TF-LÍF höfð reiðubúin til taks á Reykjavíkurflugvelli.

Um var að ræða annað þyrluútkall Gæslunnar í gær en haft var samband við hana um hádegisbil vegna slyss í Hvítá. Átti þyrlan skammt eftir ófarið þegar hún var afboðuð.

Erlendur karlmaður lést skömmu eftir hádegi í gær eftir að hafa fallið útbyrðis við flúðasiglingar á ánni.

Þar sem þyrla Gæslunnar var komin að Hvítá óskaði lögregla eftir því að svipast yrði um eftir manninum sem féll í Gullfoss fyrir skömmu. Skilaði sú leit ekki árangri.

Gæslan flaug einnig yfir Mýrdalsjökul í gær og tók myndir fyrir Veðurstofuna af sigkötlum í jöklinum.

Tilkynning Landhelgisgæslunnar í heild:

„Stjórnstöð Landhelgisgæslunnar barst seinni partinn í dag aðstoðarbeiðni frá erlendum togara vegna veiks skipverja um borð. Togarinn var þá að veiðum í grænlenskri lögsögu, rúmar 120 sjómílur norðvestur af Straumnesi. Eftir samtal við skipstjóra togarans taldi vakthafandi þyrlulæknir þörf á að koma sjúklingnum sem fyrst undir læknishendur. Þar sem ekki var unnt að senda þyrlu frá Grænlandi skipinu til aðstoðar var ákveðið að senda þyrlu Landhelgisgæslunnar eftir sjúklingnum og var skipstjóri togarans því beðinn að halda áleiðis til Íslands til móts við þyrluna.

Þyrla Landhelgisgæslunnar, TF-GNÁ, fór í loftið um klukkan hálfátta í kvöld. Kom þyrlan við á Ísafirði til eldsneytistöku og hélt svo áleiðis til móts við skipið. Þar sem um langa vegalengd á haf út var að ræða var TF-LÍF til taks á Reykjavíkurflugvelli í öryggisskyni.

Um klukkan tíu í kvöld kom þyrlan að togaranum um 60 sjómílur norðvestur af Straumnesi. Þar var sjúklingurinn var hífður um borð í þyrluna og síðan haldið áleiðs til Reykjavíkur. Áætlað er að þyrlan lendi í Reykjavík nú um miðnættið.

Þetta er annað þyrluútkallið í dag en þyrla var einnig kölluð út um hádegisbil vegna slyss í Hvítá. Átti þyrlan skammt eftir ófarið á vettvang þegar hún var afboðuð.

Þar sem þyrlan var komin að Hvítá óskaði lögregla eftir því að svipast yrði um eftir manninum sem féll í Gullfoss fyrir skömmu. Var sú leit árangurslaus.

Einnig var flogið yfir Mýrdalsjökul í dag og teknar myndir fyrir Veðurstofuna af sigkötlum í jöklinum.“ 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert