Finna týndar kisur með krafti Facebook

Týndir kettir eru mikið vandamál á Íslandi og svo virðist …
Týndir kettir eru mikið vandamál á Íslandi og svo virðist sem hópurinn taki ágætlega á því. Undanfarna viku hafa 34 mál verið tilkynnt og þar af hafa níu kisur skilað sér heim. mbl.is/Ómar Óskarsson

Facebook-hópurinn Kattavaktin var stofnaður sem betri lausn til að finna týnda ketti en „bara með þessum miðum á ljósastaura“ að sögn stofnenda hans. Hópurinn nýtir þannig samfélagsmiðilinn til að fækka týndum köttum á Íslandi. Hann virðist bera tilætlaðan árangur en í dag eru næstum 7.000 félagar í hópnum. Undanfarna viku hafa 34 mál verið tilkynnt og þar af hafa níu kisur skilað sér heim, að því best er vitað.

Hópurinn er hugsaður sem vettvangur fyrir kattaeigendur og aðra kattavini til að deila upplýsingum um týndar og fundnar kisur. Hópurinn þjónar einnig sem upplýsingaveita fyrir kattaeigendur í leit að köttunum sínum. Stofnendur hópsins eru hjónin Sólrún Gunnarsdóttir og Friðrik Jónsson, ásamt Arndísi Björgu Sigurgeirsdóttur, formanns dýraverndarfélagsins Villikatta.

Níu kisur skiluðu sér heim í vikunni

Sólrún segist ekki hafa búist við að hópurinn yrði svona fjölmennur. Hún hafi samt vonað það því þá myndi hann ná til sem flestra en það hafi verið tilgangurinn.

„Því að hugmyndin spratt út frá auglýsingum sem maður sér út á götu, kannski á rafmagnskössum eða eitthvað, um týnda ketti. Þær ná kannski í rauninni ekki til nógu margra. Þess vegna vildum við setja þetta á opnari vettvang,“ segir hún.

Svo virðist sem hópurinn beri tilætlaðan árangur en undanfarna viku hafa 34 færslur verið settar inná hópinn um týndar eða fundnar kisur. 17 færslur voru settar inn um fundnar kisur og þar af fannst eigandinn í að minnsta kosti fjögur skipti. Tilkynnt var um 17 týndar kisur og af þeim fundust fimm.

Högnarnir Lúðvík og Matti voru meðal þeirra sem rötuðu heim og þá skilaði læðan Perla sér á réttan stað.

Hér má sjá Sólrúnu, einn stofnenda síðunnar, með kettinum sínum. …
Hér má sjá Sólrúnu, einn stofnenda síðunnar, með kettinum sínum. Í dag á hún kettina Óðin og Bilbó. Ljósmynd/Sólrún Gunnarsdóttir

Stofnaður þegar Sveinn slapp

Kattavaktin hefur verið til í fimm ár en hjónin stofnuðu hann þegar innikötturinn þeirra, Sveinn, slapp fram af svölunum. „Við fengum svo mikið sjokk en hann fannst sama dag. Við hugsuðum að það hefði verið mjög gott að geta lýst eftir honum á „effektívari“ hátt heldur en bara með þessum miðum á ljósastaura,“ segir Sólrún.

Að hennar sögn eru týndir kettir mikið vandamál á Íslandi. Það megi ef til vill rekja til þess að fólk treysti of mikið á sjálfstæði þeirra. 

„Kettir eru voðalega sjálfstæðir en fólk áttar sig ekki á því að þeir þurfa samt sitt svæði og sína umhyggju. Þeir eru kannski ekki alveg eins sjálfstæðir og fólk vill vera að láta,“ segir hún.

Þeir þurfi reglu og öryggi.

„Það þurfa það allir,“ bætir Sólrún við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert