Vilja 200 km gönguleið við Vatnajökul

Jöklaleiðin er 200 kílómetra löng gönguleið meðfram suðurbrún Vatnajökuls sem …
Jöklaleiðin er 200 kílómetra löng gönguleið meðfram suðurbrún Vatnajökuls sem verið er að vinna við að stika. Nú þegar er hægt eru tæpir 40 kílómetrar hennar tilbúnir en á svæðinu er fjöldi gönguleiða en Jöklaleiðin er ætluð til þess að tengja þær allar saman. Ljósmynd/Þorvarður Árnason

Sveitarfélagið Hornafjörður vinnur að uppbyggingu 200 kílómetra langrar gönguleiðar um suðurbrún Vatnajökuls, sem kallast Jöklaleiðin. Verkefnið eru unnið í samstarfi við Vatnajökulsþjóðgarð og aðra hagsmunaaðila á svæðinu og er nú búið að stika og merkja um 40 kílómetra af heildarleiðinni sem kemur til með að ná frá Lónsöræfum að Skaftafelli.

Búið er að opna formlega einn legg leiðarinnar, Breiðármörk, sem liggur á milli Fjallsárlóns og Jökulsárlóns. Sú leið  er 15 kílómetra löng og er m.a. gengið hjá þremur jökullónum. Verið er að leggja lokahönd á annan legg leiðarinnar sem liggur milli Haukafells á Mýrum og Skálafells í Suðursveit en sú leið er 22 kílómetrar og kallast gönguleiðin Mýrajöklar. Miklar jökulár renna um svæðið og þurfti því að byggja þrjár göngubrýr og eitt ræsi til að gera svæðið aðgengilegt. Er sú vinna nú á lokastigi og stefnt að formlegri opnun leiðarinnar í ágúst.

„Við erum rík af gönguleiðum hér á svæðinu en þetta er hugsað sem svona hryggjarstykki sem tengir þær allar saman,“ segir Árdís Erna Halldórsdóttir, atvinnu- og ferðamálafulltrúi Sveitarfélagsins Hornafjarðar. Verkefnið hófst árið 2012 og er sem fyrr segir samstarfsverkefni  á milli sveitarfélagsins og annarra hagsmunaaðila á svæðinu, en góðir styrkir frá Framkvæmdasjóði ferðamannastaða og Vinum Vatnajökuls hafa gert framkvæmdina mögulega.

Á svæðinu er að finna stórbrotið landslag með jöklum, lónum, …
Á svæðinu er að finna stórbrotið landslag með jöklum, lónum, fjölbreyttum jarðmyndunum og flóru, auk mikils fuglalífs. Ljósmynd/Þorvarður Árnason

Gert til þess að ganga, dvelja og njóta

Gönguleiðirnar eru fyrst og fremst ætlaðar þeim sem stunda yndisferðamennsku (e. slow adventure tourism) og eru þær byggðar þannig upp að fólk geti komið á staðinn, dvalið þar til lengri tíma og notið umhverfisins.

Í Vatnajökulsþjóðgarði er mikið unnið að uppbyggingu gönguleiða og fellur Jöklaleiðin vel að  þeirri vinnu sem þar er þegar unnin og er í samræmi við markmið þjóðgarðsins hvað varðar gönguferðamennsku. „Samfélagið tekur þátt í að auka við þessa tegund afþreyingar,“ segir Árdís og bætir við að á svæðinu sé að finna  stórbrotið landslag. „Þarna eru jöklar og jökullón, fjölbreyttar jarðmyndanir og flóra, sem og mikið fuglalíf.“

Auk þess að bjóða upp á aðgengilega gönguleið um svæðið er markmið verkefnisins að fræða gesti um menningu, sögu og náttúru svæðisins. Á fyrri legg leiðarinnar, Breiðármörk, hafa verið sett upp skilti til upplýsingar. Á seinni leggnum, Mýrajöklum, nýta þau svokallaða snjallleiðsögn sem felst í því að göngufólki gefst tækifæri til þess að hlaða niður göngukorti sem inniheldur upplýsingar um ákveðna staði á leiðinni.

Markmið verkefnisins er að fræða gesti um menningu, sögu og …
Markmið verkefnisins er að fræða gesti um menningu, sögu og náttúru svæðisins. Til þess eru notuð skilti og svokölluð snjallleiðsögn sem fólk getur hlaðið niður í snjallsíma eða tölvu. Ljósmynd/Þorvarður Árnason

Gönguleið fyrir alla

Jöklaleiðin er að mestu á láglendi og því aðgengileg flestum. Út frá henni er svo hægt að fara aðrar meira krefjandi leiðir. Við upphafs- og endastaði er að finna þjónustu af einhverju tagi og er lagt upp með að annaðhvort sé gisting á svæðinu eða í grennd við það.

Árdís segir leiðina ekki síður vera ætlaða Íslendingum en erlendum ferðamönnum sem heimsækja svæðið. Ríki Vatnajökuls, sem er ferðaþjónustuklasi á svæðinu, hefur gefið út gönguleiðakort sem eru bæði á íslensku og ensku. Eins eru upplýsingaskiltin og snjallleiðsögnin á þessum tveimur tungumálum. „Leiðin laðar að þá ferðamenn sem við teljum að muni njóta þess að vera hérna á svæðinu og viljum gjarnan fá,“ segir Árdís.

„Mætt mikilli velvild í garð verkefnisins“

Árdís segir þau hafa „mætt mikilli velvild í garð verkefnisins“. Samstarf við Vatnajökulsþjóðgarð,  landeigendur og ferðaþjónustuaðila á svæðinu gengur vel en það sé nauðsynlegt til þess að verkefnið gangi upp.

„Framtíðarsýnin er að það verði gönguleið með jökli í gegnum alla sýsluna,“ segir Árdís en næsta skref er að fylgjast með þeim leiðum sem þegar eru komnar. Þá sé fylgst með viðhaldi á gönguleiðunum, hversu langar ákjósanlegt er að þær séu hverju sinni og ekki síst hvort fellur betur í kramið hjá almenningi; upplýsingaskiltin eða snjallleiðsögnin.

„Leiðin laðar að þá ferðamenn sem við teljum að muni …
„Leiðin laðar að þá ferðamenn sem við teljum að muni njóta þess að vera hérna á svæðinu og viljum gjarnan fá,“ segir Árdís. Framtíðarsýnin er að það verði gönguleið meðfram jöklinum í gegnum alla sýsluna. Ljósmynd/Þorvarður Árnason
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert