Ógildingu hafnað en hluti kröfu aftur í hérað

Ástráður Haraldsson og Jó­hann­es­ Rún­ar Jó­hanns­son­.
Ástráður Haraldsson og Jó­hann­es­ Rún­ar Jó­hanns­son­. Samsett mynd

Hæstiréttur hefur staðfest niðurstöðu héraðsdóms um að vísa frá dómi ógildingarkröfu Jóhannesar Rúnars Jóhannssonar og Ástráðs Haraldssonar á hendur íslenska ríkinu vegna skipan dómara við Landsrétt.

Hæstiréttur fellir hins vegar úr gildi úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur um að vísa frá dómi viðurkenningarkröfu Jóhannesar og Ástráðs og hefur lagt fyrir héraðsdóm að taka þá kröfu til efnismeðferðar. Þá kemst Hæstiréttur að þeirri niðurstöðu að ríkið greiði þeim Jóhannesi og Ástráði 800.000 krónur í kærumálskostnað.

Þeir Jóhannes og Ástráður voru báðir meðal 33 umsækjenda um embætti dómara við Landsrétt og meðal þeirra 15 sem sérstök dómnefnd hafði talið hæfasta til að gegna því embætti. Þegar dómsmálaráðherra gerði tillögu til Alþingis um hvaða 15 umsækjendur skyldi skipa dómara við réttinn voru hvorki Jóhannes né Ástráður meðal þeirra sem ráðherra lagði til að yrðu skipaðir.

Alþingi samþykkti tillögur ráðherra og voru þær í kjölfarið sendar forseta Íslands sem ritaði undir skipunarbréf þeirra 15 dómara sem ráðherra lagði til.

Báðir höfðuðu þeir í kjölfarið mál á hendur íslenska ríkinu þar sem báðir fóru fram á ógildingu athafna ráðherra og í  öðru lagi fóru þeir fram á viðurkenningu á skaðabótaskyldu ríkisins vegna þess tjóns sem þeir töldu sig hafa orðið fyrir vegna þessa. Í þriðja lagi var farið fram á miskabætur.

Í fyrstu var í fréttinni því ranglega haldið fram að Hæstiréttur hafi vísað frá öllum kröfum Ástráðs og Jóhannesar. Fréttin hefur verið uppfærð og það leiðrétt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert