Talið að flestir fari úr landi en sumir séu í felum

Útlendingastofnun.
Útlendingastofnun. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Íslensk stjórnvöld vita ekki hvar nokkrir tugir hælisleitenda, sem synjað hefur verið um hæli hér á landi síðustu ár, eru niðurkomnir. Vísbendingar eru um að sumir þeirra séu hér í felum og stundi svarta atvinnustarfsemi.

Þetta kemur fram í Fréttablaðinu í dag.

Þar segir, að samkvæmt tölum frá Útlendingastofnun hafi tuttugu manns horfið það sem af sé þessu ári. Síðustu ár hafi fjöldinn að jafnaði verið á bilinu tíu til fimmtán manns á ári. Talið er að flestir hafi farið af landi brott án þess að tilkynna það til stofnunarinnar, en að hinir séu enn hér á landi.

Þorsteinn Gunnarsson, staðgengill forstjóra Útlendingastofnunar, segir í samtali við blaðið að ástæðurnar séu marvíslegar. Stundum séu þetta einstaklingar sem eigi skilríki en hafi ekki afhent þau stjórnvöldum og noti þau til að fara úr landi. Svo séu einstaklingar sem fari í felur, og stundum detti fólk út úr kerfinu. Það komi líka alveg fyrir að einstaklingur hverfi og skjóti svo upp kollinum nokkrum mánuðum síðar. Hann segir ennfremur að hlutfallslega sé fjöldi þeirra sem hverfur hér á landi umtalsvert minni en hjá öðrum Norðurlandaþjóðum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert