Vilja aðstoða lögreglu að losa jeppann

Land Cruiser jeppinn situr fastur í mýrlendi í um 400 …
Land Cruiser jeppinn situr fastur í mýrlendi í um 400 metra hæð í Esjuhlíðum.

Meðlimir í Ferðaklúbbnum 4x4 fordæma akstur Land Cruiser jeppa upp hlíð Esjunnar á laugardag, en bíllinn festist í mýrlendi í um 400 metra hæð og situr enn fastur.

Greinileg djúp hjólför eru eftir jeppann í grasinu og leitar lögregla nú leiða til að losa bílinn og ná honum niður af fjallinu þannig sem minnst rask verði á umhverfinu.

„Við fordæmum þennan akstur og það tjón sem þessi háttsemi var völd af. Stjórn, Umhverfisnefnd og félagsmenn Ferðaklúbbsins 4x4 eru tilbúnir að aðstoða og hjálpa til við lagfæringar á þeim ummerkjum sem urðu við aksturinn,“ segir Sveinbjörn Halldórsson, formaður klúbbsins. Hann segir félagsmenn tilbúna að aðstoða á allan þann hátt sem þeir geta, hvort sem það er við að losa bílinn eða lagfæra jarðrask, sé þess óskað. 

Ýmislegt finnst í hlíðum Esjunnar.
Ýmislegt finnst í hlíðum Esjunnar. Kort/Map.is

Sveinbjörn segir félagsmenn klúbbsins búa yfir mikilli þekkingu og tækjabúnaði, líkt og björgunarsveitir, til að takast á við verkefni af þessum toga.

Umræður hafa skapast um málið á Facebook-síðu Ferðaklúbbsins 4x4, en þar er meðal annars varpað fram hugmynd um hvernig best sé að fjarlægja bílinn. „Fara á 44 - 46 tommu bíl, hleypa vel úr, spila hann afturábak og mýkja svo dekkin á honum og dúlla til baka sömu leið, ef búið er að finna lyklana þá býð ég mig fram i verkið,“ skrifar einn sem hugsanlega gæti aðstoðað lögreglu við verkefnið.

Á Facebook-síðunni eru einnig birtar myndir sem náðust af ökumanni og farþegum jeppans þegar þeir yfirgáfu hann á laugardag eftir að hafa fest sig. Þar kemur fram að þeir hafi lagt á flótta undan myndatökumanninum, vitað upp á sig sökina.

Lögreglu gekk erfiðlega að hafa uppi á eiganda jeppans, en það náðist ekki í hann fyrr en eftir hádegi í dag. Um tveimur sólarhringum eftir að bíllinn festist. Gaf hann skýrslu hjá lögreglu, sagðist hafa verið með ferðamenn í bílnum og verið að reyna að snúa við þegar hann festi bílinn.

Ferðaklúbburinn býður fram krafta sína.
Ferðaklúbburinn býður fram krafta sína.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert