Herjólfur ætti nú að sigla vandræðalaust

Dýpið í Landeyjarhöfn hefur verið til mikilla vandræða en Herjólfur …
Dýpið í Landeyjarhöfn hefur verið til mikilla vandræða en Herjólfur þurfti að aflýsa sex ferðum í síðustu viku. Árni Sæberg

Herjólfur ætti nú að geta siglt vandræðalaust þar sem dýpið í kringum Landeyjarhöfn er orðið fullnægjandi fyrir skipið. Þetta staðfestir Sigurður Áss Grétarsson, framkvæmdastjóri siglingasviðs hjá Vegagerðinni. Dæluskipið Dísa hefur verið að vinna í Landeyjarhöfn, við að dýpka mynni hafnarinnar.

Frétt mbl.is: Verði dýpið til vand­ræða geti ferj­an aðstoðað

Dýpið í höfninni hefur verið til mikilla vandræða en Herjólfur þurfti að aflýsa sex ferðum í síðustu viku vegna þess ekki var nægt dýpi til að sigla. Þá hefur fólk óttast að það geti haft áhrif á flutninga yfir verslunarmannahelgi en mörg þúsund manns treysta á Herjólf til að komast á milli lands og Eyja fyrir Þjóðhátíð.

Dýpkunarskipið Dísa heitir í höfuðið á Þórdísi Unndórsdóttur, skrifstofustjóra hjá …
Dýpkunarskipið Dísa heitir í höfuðið á Þórdísi Unndórsdóttur, skrifstofustjóra hjá Björgun. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Sigurður segir að þrátt fyrir að aðgerðum ljúki líklega í lok vikunnar, fyrir verslunarmannahelgi, þá ætti nú þegar að vera komið fullnægjandi dýpi fyrir Herjólf til að sigla. Viðunandi dýpi hafi líklega náðst í gær en það það verði mælt í dag til að fyllilega staðfesta það. Því ættu ferðir Herjólfs að ganga smurt héðan í frá.

Dísa hefur unnið hörðum höndum síðan á laugardag. Starfið hefur gengið ágætlega enda mikil veðurblíða. Samið var um að dæluskipið, sem er í eigu Björgunar, fjarlægi 25.000 fermetra af sandi úr höfninni. Sandurinn hefur safnast við höfnina vegna stórstreymis.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert