Hljóp út í móa eftir bílveltu

mbl.is/Þórður

Lögreglan á Suðurnesjum hefur handtekið mann sem hljóp af vettvangi eftir að hafa velt bíl sínum á Reykjanesbraut við Strandaheiði.

Lögreglan fékk tilkynningu um bílveltuna klukkan rúmlega 18 og var hún komin á staðinn tíu mínútum seinna.

Ökumaðurinn rauk þá af vettvangi og hljóp út í móa en lögreglan náði til hans um hálftíma síðar.

Maðurinn er grunaður um ölvun við akstur.

Að sögn lögreglunnar fékk hann skurð á hendi en meiðslin eru ekki talin alvarleg.

Maðurinn settist niður þegar lögreglumaður nálgaðist hann úti í móanum og veitti hann enga mótspyrnu. Hann var því næst settur í handjárn og leiddur inn í lögreglubíl. Málið er í rannsókn lögreglunnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert