Skemmtibátur sökk við Vogastapa

Þyrla Landhelgisgæslunnar.
Þyrla Landhelgisgæslunnar. mbl.is/Sigurður Bogi

Skemmtibátur með tvo menn um borð sökk undan Vogastapa, á milli Voga og Njarðvíkur, í kvöld. Að sögn Landhelgisgæslunnar virðist sem mennirnir tveir hafi náð að synda sjálfir í land.

Þeir voru fluttir með þyrlu Gæslunnar á Landspítalann. Þeir eru ómeiddir en bæði blautir og kaldir.

Landhelgisgæslan fékk viðvörðun eftir að báturinn hætti að senda frá sér merki laust fyrir klukkan níu í kvöld.

Á sama tíma voru sjóbjörgunarsveitir frá Suðurnesjum á æfingu norður af Vogastapa. Þær voru kallaðar til og komu að bát sem maraði í kafi. Enginn var sjáanlegur nálægt honum. Skömmu síðar komu þeir auga á tvo menn sem höfðu náð að komast í land.

Ein af þyrlum Landhelgisgæslunnar var kölluð út. Hún kom á svæðið og tók mennina um borð og flutti þá á sjúkrahús þar sem hún lenti með þá klukkan rúmlega tíu í kvöld.

Ekki er vitað hversu lengi mennirnir voru í sjónum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert