Börðust um bestu stæðin fyrir hvítu tjöldin

Það er mikið hjartansmál fyrir Eyjamönnum að ná sem bestu …
Það er mikið hjartansmál fyrir Eyjamönnum að ná sem bestu stæði undir hvítu tjöldin. Ljósmynd/Óskar P. Friðriksson

„Þetta er allaf mikið hjartans mál hjá Vestmannaeyingum að fá sitt stæði,“ segir Dóra Björk Gunnarsdóttir, formaður Þjóðhátíðarnefndar, í samtali við mbl.is. Í kvöld fór fram árlegt kapphlaup heimamanna í Eyjum um að ná bestu stæðunum undir hvítu tjöldin fyrir Þjóðhátíð og fór keppnin „að mestu leyti mjög vel fram,“ að sögn Dóru.

„Það eru ekkert alltaf allir sammála, það er bara eins og gengur í lífinu en ég held að það hafi bara allir farið nokkuð sáttir heim þegar það var búið að koma öllum fyrir,“ segir Dóra létt í bragði.

Hörð keppni um bestu stæðin

Hún segir ákveðnar hefðir hafa skapast um það hverjir eru með tjöld hvar en hvítu tjöldunum er raðað niður á nokkrar götur. „Það er ákveðið fólk sem að vill vera alltaf á ákveðnum götum. Til dæmis eins og Veltusund það er mjög formfast, það er eiginlega bara sama röð alltaf,“ útskýrir Dóra.  „Þú þarft bara fyrsta tjald í Veltisundi annars verður ekki Þjóðhátíð held ég,“ bætir hún við og hlær.

Hlaupið af stað.
Hlaupið af stað. Ljósmynd/Óskar P. Friðriksson

Hvítu tjöldin sem reist eru árlega í tilefni af Þjóðhátíð eru á bilinu 270-340 talsins en að sögn Dóru voru öll tjaldstæðin tekin í gegn og sléttuð fyrir nokkrum árum svo flest stæðin ættu í dag að vera nokkuð góð, þrátt fyrir það sé hörð keppni um stæðin.

Hélt að kapphlaupið væri sviðsett

„Sjálfboðaliðarnir sem eru að vinna fyrir félagið þeir fá að byrja tveimur mínútum á undan og þegar þeir hafa lokið sér af þá kemur að hinum en það er yfirleitt alltaf aðeins þjófstart,“ segir Dóra og bætir við að hún hafi átt skemmtilegt samtal um kapphlaupið við mann úr Reykjavík í dag.  

„Hann hélt að þetta væri sviðsett atriði. Þetta væri bara til að búa til svona eitthvert ljósmynda-„móment,“ segir Dóra og hlær, svo mikið sé keppnisskapið að fólk sem ekki þekki til eigi bágt með að trúa því að ekki sé um einhvers konar grín að ræða.

Þingmennirnir og Eyjamennirnir Páll Magnússon og Ásmundur Friðriksson í faðmlögum. …
Þingmennirnir og Eyjamennirnir Páll Magnússon og Ásmundur Friðriksson í faðmlögum. Ekki fylgir sögunni hvort Páll hafi náð góðu stæði en hann virðist í það minnsta kátur á myndinni. Ljósmynd/Óskar P. Friðriksson

Hafist verður handa í fyrramálið við að reisa súlurnar í tjöldin og telur Dóra líklegt að flestir klári að tjalda á morgun enda veðurspáin með besta móti. Þjóðhátíð hefst með Húkkaraballinu annað kvöld og er algjört óskaveður í kortunum.

„Þannig að ég held að þetta fari bara allt vel af stað og við bara bíðum spennt eftir næstu dögum,“ segir Dóra að lokum.

Ljósmynd/Óskar P. Friðriksson
Ljósmynd/Óskar P. Friðriksson
Ljósmynd/Óskar P. Friðriksson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert