Fékk óvænta heimsókn frá hrafni

Ragnheiður og hrafninn kunnu vel hvort við annað.
Ragnheiður og hrafninn kunnu vel hvort við annað. Skjáskot

„Það er gott að byrja daginn svona og eignast ævintýravin,“ segir Ragnheiður Axel, sem fékk óvænta heimsókn í vinnuna í morgun, frá einkar mannblendnum hrafni. Mætti hann fyrir utan vinnustað hennar í Hólshrauni í Hafnarfirði og bankaði á hurðina með goggnum.

„Ég fór fram og heilsaði honum og þetta var svo skrítið. Hann var svo gæfur; vildi bara kroppa í skóna mína og spjalla,“ segir hún. Ragnheiður er mikill dýravinur og vön því að leika við hunda en kveðst ekki hafa vitað hvernig hún ætti að snúa sér þegar kæmi að hröfnum. „Ég hef aldrei hitt hrafn og haldið á fugli svona. En svo flaug hann bara upp og settist á hausinn á mér,“ segir hún og hlær.

Ragnheiður sagði nágrönnum vinnustaðarins frá heimsókninni og komst þá að því að sami hrafn hafði heimsótt þá deginum áður. „Þau sögðu að hann kæmi oft í heimsókn og vildi ekkert fara heldur væri bara á glugganum,“ segir hún.

Stríðinn og vanur að umgangast fólk

Eftir að hafa grennslast fyrir um hrafninn komst hún að því að hann býr í Garðabæ og er vanur því að umgangast fólk. „Hann bankar víst oft upp á hjá fólki og fyrirtækjum og vill leika,“ segir hún, alsæl með heimsóknina. „Hann er greinilega vanur að umgangast fólk því þegar ég spjallaði við hann og spurði hvað hann væri að gera þarna þá svaraði hann bara.“

Ragnheiður segir hrafninn einnig vera mjög stríðinn, en hún hafi komist að því þegar hún spjallaði við nágrannana að hann hefði oft strítt mönnum og hundum. Þá sé hann duglegur að banka á gluggana hjá fólki – og hætti ekki þar til einhver spjalli við hann.

En hvert fór hrafninn eftir kynnin í morgun? „Ég sá hann labba yfir til nágranna míns svo hann er farinn. En ég vona að hann komi aftur einhvern tímann,“ segir Ragnheiður.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert