Fólkið biður um malbik en ekki möl

Ljós­mynd/​Eyþór Hann­es­son

Fólk er ekki að biðja um betri malarveg, fólk er að biðja um malbik. Þetta segir Magnús Jóhannsson, yfirverkstjóri á Fellabæ, sem meðal annars sér um veginn að Borgarfirði eystra. Hann segir það að keyra örlitla möl í veginn á hverju ári vera eins og að pissa í skóinn sinn. Umferð yfir veginn sé orðin svo mikil að malarvegur höndli hana ekki.

Íbúar á Borgarfirði eystra hafa mikið kvartað undan mal­ar­veg­inum sem liggur yfir Vatns­skarð og að firðinum. Að þeirra sögn verður vegurinn gjörsamlega ónýtur, sér­stak­lega á sumr­in og í bleytu.

Í samtali við mbl.is í gær sagði Hafþór Snjólfur Helga­son, formaður Ferðamála­hóps Borg­ar­fjarðar, að ástand vegarins væri Austurlandi til skammar. Ferðamenn hefðu snúið við vegna vegarins og Borgarfjörður eystri væri eini þéttbýliskjarninn á landinu sem hefði enn ekki bundið slitlag að bænum.

Með rigningu og umferð endist þetta ekki neitt

Magnús segir að í sumar sé búið að hefla veginn í heild sinni fjórum til fimm sinnum. Aftur á móti sé þá ekki verið að telja með þegar hluti vegarins er heflaður, en það gerist að hans sögn oftar. Til dæmis hafi vegurinn verið heflaður þrisvar sinnum undanfarna sjö daga.

Aðspurður segir Magnús endingartíma hverrar viðgerðar fara eftir veðri. „Ef við fáum veginn góðan núna og svo hæfilega þurrt getur þetta enst einhverja daga og vikur. En ef það kemur mikil rigning og umferð með endist þetta ekki neitt,“ segir Magnús.

Ljós­mynd/​Eyþór Hann­es­son

Það er enginn að biðja um betri malarveg

Til að koma veginum í betra ástand þurfi að keyra meira malarslitlag í hann. Að sögn Magnúsar er þó enginn að biðja um það. „Það er enginn að biðja um malarveg, fólk er að biðja um bundið slitlag á veginn.“ 

Magnús segir að við það að keyra örlitla möl í veginn á hverju ári sé „í rauninni bara verið að pissa í skóinn sinn“. Það sé vegna þess að umferðin á Borgarfjörð sé orðin svo mikil að vegurinn geti ekki staðist hana nema við góð skilyrði. „Það er bara ekki hægt,“ segir hann, „alveg sama hversu gott malarslitlagið er,“ bætir hann við.  

Hann segir að á hluta Borgarfjarðarvegar sé til dæmis kafli af bundnu slitlagi sem sé svo ósléttur að „hann myndi hvergi nokkurs staðar viðgangast“ en Borgfirðingum detti ekki í hug að kvarta yfir því. Hann sé skömminni skárri en malarvegurinn.

Þreytt á að bíða eftir malbikinu

Að hans sögn er hefur verið of löng bið eftir lengingu á bundna slitlaginu. Fólk sé orðið þreytt á biðinni. „Sannleikurinn er náttúrulega sá að þessu hefur ekkert miðað áfram, nú er ég ekki að tala bara um Borgarfjörð heldur almennt,“ segir hann.

„Við verðum að hlusta eftir þessu. Fólk er að biðja um bundið slitlag og þá verður að hefjast handa við að endurgera þennan veg og koma bundnu slitlagi á hann,“ bætir hann við.

Ljós­mynd/​Eyþór Hann­es­son

Í uppáhaldi hjá dekkjaverkstæðum

Magnús segir fullyrðingu Hafþórs um að sumir fari ekki veginn sökum malarinnar vera alveg rétta. „Það þýðir ekkert annað en að segja það eins og það er,“ segir hann. Fólk kæri sig ekki um að fara svona með bílinn sinn.

Að hans sögn er blessunarlega ekki mikið um óhöpp á veginum en bílarnir endist aftur á móti ekki í mörg ár: „Það er dýrt fyrir fólkið að búa við svona veg.“ Dekk springi oft undan bílum út af malarvegum enda séu þau einfaldlega ekki ætluð slíkum vegum heldur bundnu slitlagi. „Þegar við heflum eins og núna erum við í miklu uppáhaldi hjá dekkjaverkstæðum,“ bætir hann við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert