Manndrápsmálið komið til héraðssaksóknara

mbl.is/Ófeigur Lýðsson

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur sent héraðssaksónara málsgögn vegna manndráps í Mosfellsdal fyrr í sumar. Rannsókninni er svo gott sem lokið en enn á eftir að yfirheyra einn einstakling vegna málsins. Þetta staðfestir Grímur Grímsson, yfirlögregluþjónn í samtali við mbl.is, en greint var frá málinu á vef  Rúv.

„Rannsókninni er ekki nákvæmlega lokið. Við eigum eftir að klára eina yfirheyrslu en við sendum málið hins vegar í vikunni til héraðssaksóknara. Hann er búinn að fá það til þess að starfsmenn þar geti byrjað að kynna sér það út af þessum 12 vikna fresti,“ segir Grímur.

Vísar hann þar til þess að ekki er heimilt að halda mönnum í gæsluvarðhaldi lengur en í 12 vikur án þess að gefin sé út ákæra en gæsluvarðhaldsúrskurður yfir Sveini Gesti Tryggvasyni rennur út seinna í þessum mánuði. Sveinn Gestur er sá eini af þeim sex sem handteknir voru í tengslum við andlát Arnar Jónssonar Aspar, sem enn situr í gæsluvarðhaldi.

Spurður segist Grímur ekki geta gefið upp hver það er sem eigi eftir að yfirheyra en sá hafi verið áður verið yfirheyrður. Kveðst hann heldur ekki geta sagt til um það hversu stóru hlutverki sú yfirheyrsla gegnir í rannsókninni. „Erfitt að segja um það. Það skiptir náttúrlega allt máli en það er erfitt að meta það svoleiðis,“ segir Grímur. „Málið er meira en sú yfirheyrsla náttúrlega en þeir [hjá héraðssaksóknara] geta byrjað að kynna sér það sem að fyrir liggur.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert