Skjálftahrina í Bárðarbungu

Græna stjarnan við Bárðarbungu táknar skjálfta sem er yfir 3 …
Græna stjarnan við Bárðarbungu táknar skjálfta sem er yfir 3 af stærð. Enn á eftir að yfirfara frummælingar. Skjáskot/Veðurstofa Íslands

„Hún er bara aðeins að minna á sig blessunin,“ segir Sigríður Magnea Óskarsdóttir, náttúruvársérfræðingur á Veðurstofu Íslands, um hrinu smáskjálfta í Bárðarbungu sem hófst á tólfta tímanum í morgun. Enn á eftir að yfirfara mælingar en samkvæmt óyfirförnum frumniðurstöðum var sá stærsti tæplega 4 að stærð.

Sigríður Magnea segir í samtali við mbl.is að nú sé unnið að því að fara yfir gögnin og því enn ekki hægt að segja með vissu hversu stórir skjálftarnir voru. Hins vegar sé ljóst að hrina sé í nú í gangi. Ekkert bendi hins vegar að svo stöddu til þess að eldgos sé á næsta leiti. „Þetta virðist bara vera smáhrina í Bárðarbungu.“

Jarðskjálftahrinan á Reykjanesi sem staðið hefur síðustu vikur er enn í gangi en þó í rénun. Sigríður segir ekkert óvenjulegt við alla þá skjálftavirkni sem fundist hafi síðustu daga og vikur. „Þetta er eins og gengur og gerist, þetta kemur oft í hviðum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert