Vita ekki hvenær brottvísun fer fram

Sunday, Mary og Joy.
Sunday, Mary og Joy. mbl.is/Kristinn Magnússon

Hjónin Sunday Iserien og Joy Lucky hafa ekki fengið upplýsingar um það hvenær þeim og átta ára gamalli dóttur þeirra Mary verður vísað úr landi. Lögmaður þeirra hefur lagt fram endurupptökubeiðni sem byggir á því að ekki nægilegt tillit hafi verið tekið til aðstæðna þeirra.

Eins og mbl.is hefur fjallað um hefur fjölskyldan búið hér á landi í eitt og hálft ár, en var nýverið synjað um hæli og dvalarleyfi og tilkynnt að henni yrði vísað úr landi. Hingað kom fjölskyldan í leit að betra lífi eft­ir að hafa upp­lifað of­beldi, fá­tækt, hót­an­ir og gríðarleg áföll í heima­land­inu og á Ítal­íu þangað sem þau flúðu fyr­ir níu árum. Þar var Joy fórn­ar­lamb man­sals, en Sunday hafði upp­lifað póli­tísk­ar of­sókn­ir í heima­land­inu.

Hjónin hafa biðlað til almennings og stjórnvalda að skoða málið og leyfa þeim að vera áfram hér á landi, en þau segja dauðann bíða sín í heimalandinu. Komu þau fram í viðtali við mbl.is í síðasta mánuði. Hefur mæðgunum nú verið boðin sálfræðiþjónusta hjá félagsþjónustunni í Reykjanesbæ.

Réttindi barna oft brotin

Fjölskyldan átti fund með umboðsmanni barna síðastliðinn föstudag þar sem fram kom að embættið teldi að í málum sem þessum væru réttindi barna oft brotin þegar réttur þeirra til að tjá sig væri sniðgenginn. Ekki væri hægt að ákvarða um hagsmuni barna eða hafa þá að leiðarljósi ef sjónarmið þeirra væru ekki tekin til greina.

Í nýjum útlendingalögum segir í 25. gr. að hagsmunir barns skuli hafðir að leiðarljósi. Barni sem myndað getur eigin skoðanir skuli tryggður réttur til að tjá sig í máli sem það varðar og tekið skuli tillit til skoðana þess í samræmi við aldur og þroska.

mbl.is/Kristinn Magnússon

Áhyggjur af málsmeðferð barna hérlendis

Í svari frá embættinu til fjölskyldunnar segir: "...við hjá umboðsmanni barna erum miklir talsmenn þess að börn fái að tjá sig í málum sem varða þau og tekið sé réttmætt tillit til skoðana þeirra, enda kemur það skýrt fram í 3. mgr. 1. gr. barnalaga nr. 76/2003. Einnig er það sérstakklega áréttað í 2. mgr. 12. gr. Barnasáttmálans að veita skuli barni tækifæri til að tjá sig við hverja þá málsmeðferð fyrir dómi eða stjórnvaldi sem barnið varðar."

Embættið hefur fjallað um áhyggjur sínar í sameiginlegri yfirlýsingu frá því í nóvember sl. sem og í ársskýrslu 2016. Þá fjallaði fráfarandi umboðsmaður barna Margrét María Sigurðardóttir um börn sem koma til landsins í leit að alþjóðlegri vernd í skýrslu um helstu áhyggjuefni 2017.

Innanríkisráðuneytið tók fram í fréttatilkynningu í nóvember sl. að skoðun hefði hafist á því hvort þörf væri á að bæta verklag þegar börn sem sækja um vernd eiga í hlut. Ekki hafa fengist upplýsingar um hver staðan á þeirri athugun er.

Þá var á sunnudag birt opið bréf til Guðna Th. Jóhannessonar, forseta Íslands, þar sem vakin var athylgi á brotum á réttindum barna hérlendis. Þar kemur fram að ekki sé tekið tillit til barna við málsmeðferð, að börn séu aðskilin frá foreldrum sínum og að nýlega hafi komið upp atvik þar sem einstaklingur undir lögaldri var fangelsaður.

Frétt mbl.is: „Vilj­ug­ur til verka og hörkudug­leg­ur“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert