Hálendi Íslands frá öðru sjónarhorni

WOW Glacier 360 er blanda keppni og ævintýraferðamennsku. Björk segir …
WOW Glacier 360 er blanda keppni og ævintýraferðamennsku. Björk segir flesta taka þátt til þess að njóta ferðarinnar en nokkrir þekktir hjólreiðakappar taka einnig þátt. Ljósmynd/Glacier 360

Fjallahjólreiðakeppnin WOW Glacier 360 fer fram í annað sinn dagana 11.-13. ágúst. Í ár eru 88 þátttakendur sem er um 40% aukning frá keppninni í fyrra þegar 62 tóku þátt. Er keppnin að hluta ævintýraferðamennska þar sem keppendur kynnast landslagi Íslands á einstakan hátt. 

Hjólað er í tveggja manna teymum sem hver hjóla frá 85 til 110 kílómetra á dag, þrjá daga í röð. Hjólað er frá afleggjaranum við Geysi um Haukadal upp í Húsafell á fyrsta degi. Daginn eftir er hjólað norðanmegin við Langjökul að Hveravöllum þar sem gist er áður en keppendur taka lokasprettinn um Þjófadali að Gullfoss.

Alla leið frá Mexíkó, Namibíu og Ástralíu

Björk Kristjánsdóttir er framkvæmdastjóri fyrirtækisins Made in Mountains sem sér um skipulagningu keppninnar. Hún segir flesta þátttakendurna í ár vera erlenda eins og í fyrra. Aðspurð hvaðan þeir koma segir hún það vera mjög fjölbreytt. Kemur fólk meðal annars frá Bandaríkjunum, Suður Afríku, Danmörku, Ástralíu, Noregi, Tékklandi, Namibíu og Mexíkó.

„Þetta er stór sena erlendis en er lítið þekkt hérna heima. Það var bara í fyrra sem þetta var í fyrsta skipti gert á Íslandi,“ segir Björk og bætir við að keppnin einkennist af blöndu keppni og ævintýra ferðamennsku.

Koma til þess að njóta ferðarinnar 

Hún segir fólk taka þátt til þess að gera eitthvað skemmtilegt, jafnvel erfitt, á daginn en vilja hafa það gott á kvöldin. „Það er það sem við erum að gera með þessu. Fólk kemur í kaffi og fær góðan mat, við sjáum um gistingu og þrífum hjólin þeirra og erum með alla þjónustu á stöðunum á milli.“

Er þetta leið sem er ekki mjög fjölfarin og ekki svo auðveldlega farin á bíl. Er það því upplifun bæði fyrir útlendinga en Íslendinga líka. „Þú sért hlutina á allt annan hátt,“ segir Björk en auk keppenda er fjöldi sjálfboðaliða sem býður fram aðstoð sína með þeim tilgangi að „komast á þessa staði og hitta fólk sem það myndi annars ekki hitta.“

Í WOW Glacier 360 hjólreiðakeppninni hjóla keppendur um hálendi Íslands …
Í WOW Glacier 360 hjólreiðakeppninni hjóla keppendur um hálendi Íslands á þremur dögum. Ljósmynd/Glacier 360

Meðal keppenda í ár er Portúgalskur meistari í maraþonfjallahjólreiðum sem ætlar að keppa með sigurvegaranum frá því í fyrra. En Björk segir að meirihluti keppenda tekur þátt til þess að njóta ferðarinnar. „Langflestir [keppendurnir] eru bara ævintýrafólk.“

Í ár bættist við UCI elite flokkur, sem er flokkur alþjóðahjólreiðasambandsins. Þýðir það að ef einstaklingur er að æfa sig fyrir stórmót, eins og til dæmis Ólympíuleikana, getur viðkomandi tekið þátt í þessari keppni og safnað stigum sem hann þarf til þess að komast á stórmót.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert