Vatn vinsælasti þynnkubaninn

Langvinsælasta aðferð Íslendinga til að losna við þynnku er að drekka vatn. Þetta kemur fram í nýrri könnun MMR á aðferðum Íslendinga við þynnku. Í tilkynningu frá MMR kemur fram að ekki sé ólíklegt að einhver finni fyrir þynnku á næstu dögum þar sem verslunarmannahelgin sé framundan, og því hafi verið ákveðið að kanna hvaða ráð Íslendingar eru líklegastir til að nota til að draga úr og sefa eymdina.

Könnunin var framkvæmd dagana 18. til 21. júlí 2017 og var heildarfjöldi svarenda 909 einstaklingar, 18 ára og eldri. 40% sögðust losna við þynnku með því að drekka vatn, en þar á eftir notuðu 24% og 21% Íslendinga verkjalyf eða borðuðu feitan mat.

Enn aðrir, eða 14% sögðust drekka íþróttadrykki og 9% sögðust drekka kaffi til að losna við þynnkuna. Einungis 3% svarenda reyndust svo djarfir að drekka meira áfengi eða að fá sér svokallaðan afréttara til að losna við timburmennina og 13% svarenda gerðu einfaldlega ekkert til að losna við þá.

Þá sagðist þriðjungur svarenda aldrei drekka eða aldrei verða þunn.

Karlar voru tvöfalt líklegri en konur til að leyfa ferlinu að eiga sinn gang og gera ekkert við þynnkunni. Hvað varðar aldur þó kom í ljós að því eldri sem svarendur voru, því ólíklegri voru þeir til að drekka vatn, taka verkjalyf, borða feitan mat og drekka íþróttadrykki og kaffi til að losna við þynnku. Þannig sögðust 58% þeirra sem voru 18 til 29 ára drekka vatn til að losna við þynnkuna, samanborið við einungis 12% þeirra sem voru 68 ára og eldri. Aftur á móti voru einstaklingar í síðarnefnda aldurshópnum líklegastir til að drekka aldrei eða verða aldrei þunnir, eða 59%.

Um stuðning við stjórnmálaflokka kom í ljós að stuðningsfólk Vinstri grænna var líklegasti hópurinn til að segjast aldrei drekka eða verða aldrei þunnt, eða 40%. Stuðningsfólk Viðreisnar var aftur á móti ólíklegasti hópurinn til að gera slíkt hið sama, eða 25% en sá hópur var líklegastur til að segjast drekka vatn (52%) og taka verkjalyf (36%) til lausnar við þynnku.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert