Harmar stöðu konunnar

Frá tjaldsvæðinu í Laugarda. Konan hefur þurft að gista í …
Frá tjaldsvæðinu í Laugarda. Konan hefur þurft að gista í tjaldi ásamt syni sínum eftir sex ár á biðlista eftir félagslegu húsnæði. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

„Ég harma þá stöðu sem viðkomandi einstaklingur er í og tel ekki forsvaranlegt að fólk þurfi að búa við slíkar aðstæður,“ segir Regína Ásvaldsdóttir, sviðsstjóri velferðarsviðs Reykjavíkurborgar.

Þar á hún við Lilju Helgu Steinberg Matthíasdóttur sem hefur þurft að gista í tjaldi í Laugardalnum ásamt syni sínum undanfarnar nætur vegna húsnæðisskorts, að því er kom fram í frétt RÚV í gær. Hún hefur verið í sex ár á biðlista hjá borginni eftir félagslegu húsnæði. 

Regína Ásvaldsdóttir, sviðsstjóri velferðarsviðs Reykjavíkurborgar.
Regína Ásvaldsdóttir, sviðsstjóri velferðarsviðs Reykjavíkurborgar.

Ekki boðlegt til langframa

Regína tekur fram að félagsráðgjafi á vegum borgarinnar sé búinn að hafa samband við Lilju Helgu í dag og vonast hún til að leyst verði úr vandamálinu.

„Í málum sem þessum þá er brýnast að félagsráðgjafi setji sig í samband við viðkomandi til að endurmeta húsnæðisumsóknina, en hún hefur verið óvenju lengi á biðlista samkvæmt fréttinni og aðstæður breyttar þar sem hún var að missa húsnæði. Annað sem við getum aðstoðað með er styrkur til fyrirframgreiðslu leigu á húsnæði og almennt að fara yfir þá stöðu sem viðkomandi er í,“ greinir Regína frá.

Aðspurð segist hún ekki vita um mörg svipuð dæmi um að fólk hafi þurfti að búa í tjaldi vegna húsnæðisvandræða. „En við vitum af tugum einstaklinga og fjölskyldna sem búa inni hjá öðrum og það eru ekki boðlegar aðstæður til langframa.“

Innflutt vinnuafl hefur áhrif

Um 1.100 manns eru á biðlista eftir félagslegu húsnæði í Reykjavík, auk þess sem 7,6% hafa beðið í fimm ár eða lengur eftir húsnæði. Regína segir að sem betur fer hafi borginni tekist að útvega flestum barnafjölskyldum húsnæði innan tveggja ára en biðin sé lengi þegar kemur að einstaklingum.

„Aðstæður á húsnæðismarkaði á Íslandi eru óvenju erfiðar og það þarf að fara mörg ár aftur í tímann  til að finna viðlíka stöðu. Þensla á vinnumarkaði kallar á innflutt vinnuafl og sem dæmi þá fluttu til dæmis rúmlega þrjú þúsund manns umfram brottflutta til landsins á öðrum ársfjórðungi 2017 og leiða má líkum að því að stór hluti hafi flutt á höfuðborgarsvæðið.   Sá mikli fjöldi íbúða sem eru í útleigu á Airbnb hefur einnig mjög mikil áhrif á markaðinn,“ útskýrir Regína.

mbl

Takmarkaðir möguleikar á að leigja

„Staðan gerir það að verkum að sá hópur sem er verst settur í Reykjavík, það er fólk sem á rétt á að sækja um félagslegt húsnæði hjá Reykjavíkurborg, á takmarkaða möguleika á að leigja á frjálsum markaði þrátt fyrir verulegan húsnæðisstuðning sem Reykjavíkurborg greiðir til viðbótar við almennar húsnæðisbætur.“

Regína segir borgina horfa til þess að félagslegu húsnæði muni fjölga mjög mikið á næstu árum. Eins og staðan er í dag leggur velferðarsviðið áherslu á að Félagsbústaðir auki við eignasafnið sitt hratt og örugglega með fjölbreyttum leiðum.

Ráðhús Reykjavíkur.
Ráðhús Reykjavíkur. mbl.is/Ómar Óskarsson

Eiga von á fleiri umsóknum og hærri greiðslum

Samkvæmt upplýsingum frá Regínu sótti 891 einstaklingur um sérstakar húsaleigubætur eða húsnæðisstyrk hjá borginni frá janúar til maí á þessu ári. Hjá Félagsbústöðum sóttu 1.667 um samskonar aðstoð á sama tímabili.

Á sama tíma í fyrra sóttu 1.070 um sérstakar húsaleigubætur eða húsnæðisstyrk hjá borginni og 2.156 um hjá Félagsbústöðum. 

Regína segir erfitt að bera saman húsnæðisbætur á milli ára því um síðustu ára móti hafi ný lög og reglugerð tekið við um húsnæðisstuðning. Reykjavíkurborg rýmkaði reglur sveitarfélagsins um sérstakan húsnæðisstuðning og tóku þær gildi 1. júlí síðastliðinn. Borgin á því von á fleiri umsóknum og hærri greiðslum í kjölfarið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert