John Snorri náði á topp K3 í nótt

John Snorri Sigurjónsson á toppi K2.
John Snorri Sigurjónsson á toppi K2. Ljósmynd/Kári G. Schram

John Snorri Sigurjónsson stóð á toppi Broad Peak, sem yfirleitt gengur undir heitinu K3, klukkan fjögur í nótt. Hann er nú á leið í grunnbúðir en fjallið er þriðja fjallið sem er meira en átta þúsund metrar að hæð sem John Snorri toppar á fjórum mánuðum.

Hjör­dís Guðmunds­dótt­ir, fram­kvæmda­stjóri Lífs styrkt­ar­fé­lags, segir að hann hafi náð á topp Broad Peak um fjögurleytið en John Snorri er nú á leið í grunnbúðir að nýju. 

Lagt er af stað á K3 úr sömu grunn­búðum og fyr­ir göng­una á K2 og er hluti hópsins staddur í grunnbúðunum. Á morgun verður síðan lagt af stað til byggða frá grunnbúðunum en komið er með asna til þess að flytja hluta farangursins til byggða. Hjördís segir farangur hópsins mjög mikinn og að áætlað sé að gangan til byggða taki fjóra til fimm daga. 

John Snorri er væntanlegur heim til Íslands um miðjan ágúst en eðli málsins samkvæmt er erfitt að gefa nákvæma dagsetningu því veður og vindar skipta miklu máli varðandi ferðalagið frá grunnbúðum til Islamabad, höfuðborgar Pakistan. K2 og K3 eru á landamærum Pakistan og Kína.

Til stendur að fljúga frá Skardu-herflugvellinum í Gilgit-Baltistan héraði til Islamabad en þar sem monsúntímabilið stendur yfir er ekki víst að hægt verði að fljúgja vegna rigninga. Það er ekkert annað í boði en að fara fótgangandi til byggða, segir Hjördís sem hefur fylgst grannt með ferðalagi Johns Snorra undanfarnar vikur en hann safnar áheitum fyrir félagið á ferðalagi sínu. Söfnunin hefur gengið vel en allt söfnunarféð rennur til kvennadeildar Landspítalans.

Gangan á K3 er ekki sögð jafn erfið og gangan á K2, sem er talið hættulegasta fjall í heimi. John Snorri hafði ekki endilega ráðgert að fara á K3 en hluti hópsins sem fór með honum á K2 ákvað að fara og John Snorri taldi sig í nógu góðu standi til að slást í för með þeim.

John Snorri varð 16.  maí fyrstur Íslendinga til að ná á topp Lhotse, sem er fjórða hæsta fjall í heimi, 8.516 metrar, og er hluti af Everest-fjallgarðinum í Tíbet. Hann varð  28. júlí fyrst­ur Íslend­inga á topp fjalls­ins K2 sem er 8.611 metr­ar. K3 er 8051 metra hátt og tólfta hæsta fjall í heimi. 

Áheita­söfn­un John Snorra fyr­ir Líf styrkt­ar­fé­lag er enn í full­um gangi og hægt er að heita á kapp­ann á heimasíðu Lífs­spors. Einnig er hægt að hringja í síma 908-1515 og leggja þannig til 1.500 krón­ur. All­ur ágóði renn­ur beint til fé­lags­ins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert