Meirihluti andvígur einkavæðingu RÚV

Ríkisútvarpið í Efstaleiti.
Ríkisútvarpið í Efstaleiti. mbl.is/Eggert

Um 23% Íslendinga eru ánægð með fjölmiðla á Íslandi en rösklega fimmtungur er óánægður. Konur eru ánægðar með fjölmiðla á Íslandi en karlar og íbúar Austurlands eru ánægðari en íbúar annarra landshluta.

Kjósendur Pírata eru óánægðastir með fjölmiðla á Íslandi en kjósendur Bjartrar framtíðar, Samfylkingarinnar, Viðreisnar og Vinstrihreyfingarinnar Græns framboðs eru ánægðastir.

Þetta kemur fram í nýrri skoðanakönnun Maskínu um fjölmiðla og einkavæðingu Ríkisútvarpsins.

Tæplega 47% Íslendinga finnst fjölmiðlar á Íslandi háðir hagsmunaaðilum en á bilinu 12% til 13% finnst þeir óháðir.

Rúmlega 17% finnst það mjög mismunandi eftir fjölmiðlum hvort þeir eru háðir eða óháðir. Yngsta fólkinu finnst í meira mæli að það sé mismunandi eftir fjölmiðlum hvort þeir eru háðir eða óháðir en annars er lítill munur eftir bakgrunni fólks í þessari spurningu.

Langstærstum hluta finnst skipta miklu máli að fjölmiðlar séu óháðir, eða rúmlega 87%, en um 8% finnst það skipta litlu máli. Kjósendum Viðreisnar finnst skipta minna máli en kjósendum hinna flokkanna að fjölmiðlar séu óháðir, að því er kemur fram í niðurstöðum könnunarinnar.

Tveir af hverjum þremur andvígir einkavæðingu

Tveir af hverjum þremur svarendum eru andvígir því að einkavæða Ríkisútvarpið, en rösklega 16% eru því hlynnt. Hærra hlutfall þeirra sem eru yngri en 25 ára er hlynnt því að einkavæða Ríkisútvarpið, eða meira en fimmtungur.

Afstaða til þessa er mjög mismunandi eftir því hvaða flokk fólk kýs. Þannig vill rúmlega 32% þeirra sem myndu kjósa Sjálfstæðisflokkinn einkavæða Ríkisútvarpið, en einungis um 5% þeirra sem myndu kjósa Vinstrihreyfinguna Grænt framboð og Samfylkinguna.

Svarendur voru 1.596 talsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert