Stutt bið í vopnaleit

Mannþröng í Leifsstöð.
Mannþröng í Leifsstöð. mbl.is/Sigvaldi Kaldalóns

Um 1,1 milljón farþega fór um Keflavíkurflugvöll í síðasta mánuði og 99 prósent þeirra sem þurftu í vopnaleit biðu þar skemur en í 10 mínútur. Þetta kemur fram í frétt á vef Túrista.

Aldrei hafa fleiri farþegar farið um flugstöð Leifs Eiríkssonar og í síðasta mánuði. Þessa fyrstu daga ágústmánaðar er umferðin Keflavíkurflugvöll líka mikil og eru 111 brottfarir á dagskrá í dag. Farþegafjöldinn gæti því náð um 40 þúsundum í dag.

„En í heildina áttu 2 milljónir farþega leið um flughöfnina í júní og júlí sem er álíka fjöldi og allt árið 2010. Sé lítið ennþá lengra aftur má sjá að farþegafjöldinn í júlí síðastliðnum jafnast á við traffíkina allt árið 1997, árið sem Isavia var stofnað.
Í ár er gert ráð fyrir að farþega á Keflavíkurflugvelli verði tæplega 8,8 milljónir og þar af eru skiptifarþegar rétt rúmlega þriðjungur,“ segir í frétt Túrista.

Þrátt fyrir þessa miklu viðbót þá var meðalbiðtíminn í vopnaleitinni stuttur því 92 prósent farþeganna fór þar í gegn eftir minna en fimm mínútna bið og fyrir 99 prósent farþega var biðin styttri en 10 mínútur samkvæmt upplýsingum frá Isavia.

Í júlí í fyrra voru biðraðirnar aðeins lengri en núna og árið sumarið á undan voru þær enn lengri og mynduðust oft langar biðraðir við öryggishliðið. Það gerðist hins vegar ekki núna og ekki heldur í síðasta mánuði líkt og Túristi greindi frá.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert