„Það er svo ofboðslega kalt“

Frá tjaldsvæðinu í Laugardal. Konan hefur þurft að gista í …
Frá tjaldsvæðinu í Laugardal. Konan hefur þurft að gista í tjaldi ásamt rúmlega syni sínum eftir að hafa verið í sex ár á biðlista eftir félagslegu húsnæði. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

Lilja Helga Steinberg Matthíasdóttir, sem gistir í tjaldi í Laugardalnum með rúmlega tvítugum syni sínum vegna húsnæðisskorts, segir að ekki hafi verið annað í stöðunni fyrir sig en að greina fjölmiðlum frá erfiðri stöðu sinni.

Hún hefur verið í sex ár á biðlista hjá Reykjavíkurborg eftir félagslegu húsnæði.

„Þegar maður er kominn alla leið út á götu er ekkert annað í stöðunni. Mig langaði ekkert að gera þetta en ég vissi að ég yrði að gera það til að það yrði eitthvað gert í mínu máli og vonandi hjá fleirum,“ segir Lilja Helga í samtali við mbl.is.

Hún segist ekkert hafa heyrt í Reykjavíkurborg enn sem komið er í kjölfar fréttarinnar á RÚV í gærkvöldi. „Það er eins og þetta komi þeim ekki við,“ segir hún og bætir við að hún sé ekki sú eina sem er á götunni. „Ég veit um nokkra en því miður er fólk ekki sýnilegt.“

Boðið sex manna tjald

Spurð út í viðbrögð almennings við fréttinni segir hún að einn hafi hringt í sig í gær og boðið henni sex manna tjald en sjálf gistir hún í tveggja manna tjaldi með syni sínum. Einnig hafði ung stúlka af Suðurnesjum samband við hana á Facebook og bauð henni að gista hjá sér í tveggja herbergja íbúð.

Lilja Helga býst við því að þiggja boð mannsins sem bauð henni tjaldið en á ekki von á því að þiggja hitt boðið því þá segir hún að ekkert verði gert í sínum málum ef hún er komin inn í íbúð.

„Ég reikna með því að þiggja boð mannsins ef ekkert annað býðst. Það er svo ofboðslega kalt. Skrokkurinn er ekki góður og ég held ég sé að verða veik.“

Hún á pantað viðtal hjá lögfræðingi Reykjavíkurborgar á miðvikudaginn næsta og vonast til að eitthvað gerist í sínum málum í framhaldinu.

Hefur Reykjavíkurborg brugðist þér?

„Já, maður hefur alltaf unnið og borgað sína skatta. Ég geri það ennþá, þó svo að ég sé öryrki. Síðast var ég í fimm mánuði á götunni og þá komst ég inn í hús til systur minnar. Borgin náði ekki að redda mér á þessum fimm mánuðum. Þá tók ég íbúð á frjálsum markaði og öll launin fóru í mánaðarleigu. Núna hljóta þeir að gera eitthvað fyrir mig.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert