Fá ekki að sigla í dag og á morgun

Ferjan Akranes hefur ekki heimild til að sigla til Vestmannaeyja …
Ferjan Akranes hefur ekki heimild til að sigla til Vestmannaeyja í dag eða á morgun. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Sæferðir, dótturfélag Eimskips, fékk ekki heimild til að sigla ferjunni Akranesi á milli Vestmannaeyja og Landeyjahafnar í dag eða á morgun. Heimild sem samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið lagði fyrir Samgöngustofu um að fallast á umsókn Eimskips náði aðeins til dagsetninganna 4. og 7. ágúst, en það eru föstudagur og mánudagur.

Félagið hóf í gærmorgun í góðri trú sölu á miðum til Eyja í dag og á morgun, en fengu skeyti frá Samgöngustofu um að ekki væri heimild til siglinga þá daga og var því fallið frá fyrirhuguðum ferðum.

Gunn­laug­ur Grett­is­son, fram­kvæmda­stjóri Sæ­ferða, segir í samtali við mbl.is að ljóst sé að heimildin sem hafi fengist hafi aðeins náð til föstudags og mánudags. Upphafleg beiðni Eimskips og kæra Vestmannaeyjarbæjar náði aðeins til þessara dagsetninga, en Gunnlaugur segir skrítið að ef það megi sigla með farþega í þessari ferju almennt sé það bannað þessa tvo daga yfir helgina.

Fullbókað hefur verið í allar ferðir Herjólfs og Akraness frá því á fimmtudaginn og þá er uppbókað í fjórar ferðir í dag með Herjólfi og fimm ferðir á morgun til Eyja.

Gunnlaugur Grettisson, rekstrarstjóri Eimskip segir aðsókn í ferjuna vera ótrúlega.
Gunnlaugur Grettisson, rekstrarstjóri Eimskip segir aðsókn í ferjuna vera ótrúlega. mbl.is/Eggert Jóhannesson

8.500 manns á þremur dögum

Gunnlaugur segir að þegar salan hafi byrjað í gærmorgun í áætlaðar ferðir Akraness í dag og á morgun hafi strax um 20-30 manns keypt miða. Segir hann að hægt hafi verið að koma þeim með til Eyja í síðustu ferðum dagsins í dag og á morgun með Herjólfi og því sé ljóst að allir sem keyptu miða komist til Eyja, þó að tíminn hafi mögulega breyst lítillega.

Samtals fluttu Herjólfur og Akranes um 4.400 manns til Eyja í gær og stefnt er á að 1.600 fari í dag. Á morgun er svo áætlað að 2.500 manns verði fluttir til Eyja. Klukkan tvö aðfaranótt mánudags hefjast svo siglingar til baka með Herjólfi og segir Gunnlaugur að siglt verði á fullu allan sólarhringinn á báðum ferjunum til að koma fólki til baka í land.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert