Björgvin endaði í sjötta sæti

Björgvin Karl Guðmundsson á heimsleikunum.
Björgvin Karl Guðmundsson á heimsleikunum. Ljósmynd/Skjáskot

Björgvin Karl Guðmundsson endaði í sjötta sæti á heimsleikunum í crossfit sem var að ljúka nú rétt í þessu. Björgvin var í sjöunda sæti í lokagreininni og með því skaust Noah Ohlsen fram úr honum, en Ohlsen varð í fimmta sæti í lokagreininni. Aðeins munaði 6 stigum á Björgvin og Patrick Vellner sem varð í fjórða sæti.

Björgvin hefur keppt nokkrum sinnum áður á heimsleikunum og var til að mynda í þriðja sæti árið 2015 og í áttunda sæti í fyrra. Í lokagreininni, sem á ensku er kölluð „Fibonacci final“, þarf að framkvæma blöndu af handstöðudýfum, réttstöðulyftum með ketilbjöllum og svo ganga áfram braut með framstigi um leið og haldið er á ketilbjöllum.

Björgvin byrjaði lokagreinina af krafti og þegar komið var að síðustu endurtekningunni af handstöðudýfum var hann fremstur í sínum flokki. Eftir réttstöðulyfturnar var hins vegar Mathew Fraser orðinn fremstur. Fraser þessi sigraði heildarkeppnina með miklum yfirburðum, en hann var með 1.132 stig og var Brent Fikowski í öðru sæti með 916 stig.

Í þriðja sæti var Ricky Garard með 834 stig, Patrcik Vellner var í fjórða með 792 stig og Noah Ohlsen í því fimmta með 788 stig. Sem fyrr segir var Björgvin í sjötta sæti með 786 stig, en rétt á eftir honum kom Scott Panchik með 784 stig.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert