Brúðkaup í Papey eftir 54 ára hlé

Óskar og Hildur stilla sér upp fyrir framan kirkjuna snotru …
Óskar og Hildur stilla sér upp fyrir framan kirkjuna snotru ásamt börnum sínum fjórum. Ljósmynd/Jón Ragnarsson

Hildur Björk Þorsteinsdóttir og Óskar Ragnarsson voru gefin saman í Papey um helgina. Er þetta í fyrsta sinn síðan sumarið 1963 sem hjónavígsla fer fram í eynni, eða í 54 ár.

Það var reyndar ekki fyrr en í síðustu viku sem parið ákvað að athöfnin skyldi fara fram í Papey.

Papeyjarkirkja er með allra minnstu kirkjum landsins og þurfti þorri gesta að fylgjast með athöfninni utan frá, að því er fram kemur í umfjöllun um brúðkaup þetta í Morgunblaðinu í dag.

Papey skartaði sínu fegursta þrátt fyrir þokuslæðing á laugardag er Óskar Ragnarsson og Hildur Björk Þorsteinsdóttir frá Djúpavogi voru gefin saman í eynni. Að sögn Margrétar Gústafsdóttur, afkomanda síðustu heilsársíbúa hennar, var síðasta brúðkaup í eyjunni haldið sumarið 1963 og lifði það hjónaband aðeins í nokkra mánuði. „En þetta mun endast lengur. Það er engin spurning um það,“ segir hún.

Búið var í Papey frá landnámi og fram til ársins 1966 en síðan þá hefur eyjan verið sumardvalarstaður Margrétar og fjölskyldu auk þess sem skipulagðar ferðir eru í eyna á sumrin.

Brúðguminn var að vonum ánægður með athöfnina. „Upphaflega ætluðum við að gifta okkur í Hofskirkju í Álftafirði þar sem ég er skírður og fermdur, en þegar við fórum að skoða kirkjuna í síðustu viku kom í ljós að hún var illa á sig komin og það voru framkvæmdir í gangi,“ segir Óskar. Því hafi verið gripið til þess ráðs að færa athöfnina út í Papey. Vinur Óskars er skipstjóri á Papeyjarferjunni og Papeyjarferðir ferjuðu gesti fram og til baka, þeim og brúðhjónunum að kostnaðarlausu. „Það var mjög rausnarlegt af þeim,“ segir Óskar.

Hann segir að líklega sé Papeyjarkirkja sú minnsta á landinu. Um 40 gestir voru samankomnir í eynni en stærstur hluti þeirra þurfti að standa utan við kirkjuna. Auk brúðhjónanna komust einungis foreldrar þeirra og fjögur börn þeirra fyrir inni í kirkjunni auk prestsins og söngkonu. Að athöfn lokinni héldu gestir svo í land þar sem veislan var haldin á Gömlu hlöðunni á Bragðavöllum þar sem bræður Óskars reka veitingasal, en þar ólust þeir bræður upp.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert