Gögn í máli Roberts Downey afhent

Brynjar Níelsson er formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar.
Brynjar Níelsson er formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar. mbl.is/Árni Sæberg

Brynjar Níelsson, formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar, hefur fengið í hendurnar gögn frá dómsmálaráðuneytinu vegna máls Roberts Downey. Þar á meðal eru meðmælaendabréf sem tveir einstaklingar veittu Roberti sem Brynjar segir algjört trúnaðarmál.

„Þetta eru bara upplýsingar sem ákveðnir nefndarmenn óskuðu eftir og ráðuneytið varð við því,“ segir Brynjar í samtali við mbl.is. Brynjar segir sum gögn vera trúnaðarmál og þar á meðal meðmælendabréfin.

„Ráðuneytið upplýsir hvernig þessum málum er háttað og hvernig þau hafa verið,“ segir Brynjar og bætir við að einnig gefi ráðuneytið upplýsingar um fjölda einstaklinga sem hefur verið veitt uppreist æru ásamt því að gefa upp fjölda mála sem hefur verið hafnað.

„Meðmælendabréfin eru afhent til okkar sem algjört trúanaðarmál. Nefndarmenn fá upplýsingar um þessi bréf en þau verða ekkert afhent,“ segir Brynjar. Hann segir bréfin eigi ekki að fara lengra en í fundarherbergið.

Ekki tekið upp aftur

Brynjar reiknar með að boða til fundar eftir helgi. Aðspurður hvort hann telji líkur á því að mál Roberts Downey, sem áður hét Róbert Árni Hreiðarsson, verði tekið upp aftur segir Brynjar: „Nei, þá gætirðu tekið öll þessi mál upp aftur. Það er fjöldi annarra mála sem menn hafa fengið uppreist æru þar sem er miklu þyngri refsing og grófari brot. Þetta mál er ekkert einsdæmi ef menn halda það,“ segir Brynjar að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert