Núverandi löggjöf nær ekki yfir transbörn

Sigríður Birna Valsdóttir, ráðgjafi hjá Samtökunum '78.
Sigríður Birna Valsdóttir, ráðgjafi hjá Samtökunum '78. Ljósmynd/aðsend

„Í rauninni eru engin lög eða reglur sem ná yfir transbörn og -ungmenni. Lögin sem eru í gildi núna ná yfir einstaklinga frá 18 ára aldri,“ segir Sigríður Birna Valsdóttir, ráðgjafi hjá Samtökunum '78, í samtali við mbl.is.

Í til­efni af Hinseg­in dög­um fer fram fræðslu­viðburður í Stúd­enta­kjall­ar­an­um sem ber yf­ir­skrift­ina Transbörn og ung­menni á Íslandi. Að sögn Sigríðar Birnu, sem mun halda erindi á fundinum, mætti margt betur fara hér á landi í málefnum þessa hóps.

„Það sem er verulega ábótavant í íslenskum lögum er nafnabreyting og breyting á kyni í Þjóðskrá,” segir Sigríður. „Eins og lögin eru núna þá verðurðu að vera búin að fá staðfesta greiningu, - þessa „greiningu“ um að þú sért trans, frá sérfræðinefnd Landspítalans og það gerist ekki fyrr en að þú ert orðinn 18 ára en þessi sjúkdómsgreining er mjög umdeild og hefur verið mótmælt af hinsegin samfélaginu.“

Meðal skilyrða til að slík staðfesting gangi í gegn hjá sérfræðinefndinni er að einstaklingur hafi lifað í sínu rétta kyni, þ.e. ekki því kyni sem viðkomandi var úthlutað við fæðingu, í ákveðið langan tíma. „Það er þó mikilvægt að það komi fram að transbörn og -ungmenni eiga að fá þjónustu hjá BUGL og sú þjónusta er alltaf að verða betri og betri,” segir Sigríður.

Löggjöf nær ekki yfir transbörn

„Af því að við erum að tala um börn og ungmenni þá eru töluvert mörg börn á Íslandi sem eru að lifa í réttu kyni og nota rétt fornöfn og nöfn frá kannski fimm, sex ára aldri og þá er svolítið langur tími þar til að þú verður 18 og getur fengið þessar breytingar formlega í gegn. Foreldrum þessa barna finnst að þau ættu að geta farið í Þjóðskrá og breytt nafni og kyni barna sinna,“ útskýrir Sigríður.

„Núverandi löggjöf nær ekki yfir transbörn og er orðin úrelt eins og sést greinilega á stöðu Íslands á regnbogakorti ILGA Europe. Það þarf heildarendurskoðun á lagalegri stöðu transfólks.”

Rekast á vegg í kerfinu

Hvað nafnabreytinguna varðar segir Sigríður Birna það skipta miklu máli fyrir transbörn að fá nafnið sitt viðurkennt, jafnvel þótt þau mæti jákvæðu og skilningsríku viðhorfi.

„Ef þú ert að nota annað nafn en skilríkin þín segja til um ertu endalaust að lenda á veggjum í kerfinu. Í hvert einasta skipti sem barnið eða foreldrar þess eiga erindi við nýja stofnun þarf að útskýra stöðu barnsins sem er ofsalega lýjandi og tekur oft á tilfinningalega. Það er erfitt að þurfa stöðugt að sannfæra aðra um að tilvist þín eigi rétt á sér. Helsta ástæðan fyrir því að svona viðburður er mikilvægur er að almennri þekkingu er svo ábótavant. Almenningur þekkir ekki þennan hóp og stöðu hans,“ útskýrir Sigríður.

Ekki eigi það síður við inni í menntakerfinu, í frístunda- og íþróttastarfi, í heilbrigðiskerfinu og hvar sem er í samfélaginu þar sem unnið er með ungu fólki.

Skortur á þekkingu og fræðslu

„Auðvitað er einhver þekking inn á milli. Almennri þekkingu er þó mjög ábótavant og það er lítið eða ekkert fjallað um þennan hóp í menntun kennara, félagsráðgjafa, lækna, hjúkrunarfræðinga og annarra starfsstétta sem vinna mikið með börnum. Sem betur fer er fólk tilbúið að afla sér fræðslu og transbörn og aðstandendur þeirra fá víðast hvar jákvæð viðbrögð, þótt það sé því miður ekki algilt. Helsta vandamálið er skortur á þekkingu og þá um leið fræðsluefni,“ segir Sigríður Birna að lokum.

Fræðslu­viðburður­inn um trans­börn og -ung­menni á Íslandi í tengsl­um við Hinseg­in daga fer fram í Stúd­enta­kjall­ar­an­um á morg­un, miðviku­dag­inn 9. ág­úst, klukk­an 12 og er op­inn öll­um.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert