Regnboginn í skjóli frá rigningunni

Stjórn Hinsegin daga og Dagur B. Eggertsson borgarstjóri við enda …
Stjórn Hinsegin daga og Dagur B. Eggertsson borgarstjóri við enda regnbogans. mbl.is/Árni Sæberg

„Allt þetta hefur áhrif. Ef maður getur breytt hugarfari einhvers eins þá er ég glöð,“ segir Eva María Þórarinsdóttir Lange, formaður Hinsegin daga, í samtali við mbl.is. Hinsegin dagar í Reykjavík 2017 hófust í dag með regnbogamálun sem er orðin fastur liður við opnun hátíðarinnar. Að þessu sinni er það heimreiðin að Ráðhúsi Reykja­vík­ur sem tekur á sig nýjan lit.

„Það var nú eiginlega veðrinu að kenna,“ segir Eva, aðspurð hvernig það kom til að stéttin við Ráðhúsið varð fyrir valinu. Til stóð að mála stéttina í Hljómskalagarðinum, þar sem útitónleikarnir að lokinni Gleðigöngunni í ár verða þar en ekki á Arnarhóli eins og venjulega.

„Þannig við ætluðum að reyna að leggja áherslu á það með því að mála á göngustígana í Hljómskálagarðinum en útaf rigningarspá þá biðum við eiginlega með að tilkynna alveg þangað til á síðustu stundu í gær. Það bar öllum veðurspám saman um að það yrði rigning í dag og það rættist svo við erum mjög fegin að við fengum að vera þarna undri skýlinu,“ útskýrir Eva létt í bragði.

Dag­ur B. Eggerts­son borg­ar­stjóri málaði fyrstu rend­urn­ar við inn­gang­ Ráðhússins í dag ásamt stjórn Hinsegin daga. Þá tóku gest­ir og gang­andi við pensl­un­um og máluðu heimreiðina und­ir leiðsögn starfs­fólks borg­ar­inn­ar. 

Hinsegin list og listafólk þemað í ár

„Við erum alltaf ótrúlega spennt og stolt af því að geta rekið þessa hátíð bara einungis með sjálfboðaliðum, það fær enginn greitt fyrir eitt eða neitt þannig það er alveg ómetanlegt að finna fólk sem ert til í að hjálpa til og láta þetta gerast,“ segir Eva sem hlakkar til næstu daga.

Hinseg­in dag­ar eru nú haldn­ir í nítj­ánda sinn og hef­ur hátíðin vaxið og dafnað með hverju ári. Hinseg­in dag­ar standa yfir frá og með deginum í dag og til 13. ágúst en þema Hinsegin daga í ár eru hinsegin list og listafólk. Á dag­skránni eru um 30 viðburðir af ýms­um toga en hægt er að kynna sér nánari dagskrá á heimasíðu Hinsegin daga.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert