Ísland verði í fremstu röð

Hinsegin dagar standa yfir í Reykjavík og nær hátíðin hápunkti …
Hinsegin dagar standa yfir í Reykjavík og nær hátíðin hápunkti með Gleðigöngunni á laugardaginn. mbl.is/Freyja Gylfa

„Við erum að leggja lokahönd í haust á aðgerðaráætlun í málefnum hinsegin fólks sem verður þá lögð fram sem þingsályktunartillaga fyrir Alþingi þar sem útgangspunkturinn er hvernig getum við fært okkur í fremstu röð,“ segir Þorsteinn Víglundsson, félags- og jafnréttismálaráðherra, í samtali við mbl.is.

Ísland hefur dregist aftur úr í evrópskum samanburði á réttindum hinsegin fólks. Í mörgum þeirra landa sem Ísland ber sig gjarnan saman við er löggjöf lengra á veg komin í málefnum hinsegin fólks og er Ísland nú í 17. Sæti af 42 þjóðum á regnbogakorti ILGA-Europe og uppfyllir aðeins 47% skilyrða sem miðað er við.

Þorsteinn segir ekki ásættanlegt að Ísland sé að dragast aftur úr á alþjóðlegan mælikvarða og segir talsvert af þeim aðgerðum sem boðaðar verði í aðgerðaáætluninni snúi að málefnum og réttindum trans fólks.

„Það er ríkur vilji í ráðuneytinu til þess að vinna að því að koma okkur í fremstu röð á ný og þessari aðgerðaáætlun er ætlað að vera leiðarstefið okkar þangað. Þessi vinna hefur staðið yfir í töluverðan tíma og í samstarfi við hagsmunaaðila en við ráðgerum að klára í haust lokafráganginn,“ segir Þorsteinn. Á von á því að þingsályktunartillagan verði því lögð fyrir á haustþingi.

Nú standa yfir Hinsegin dagar í Reykjavík en aðspurður segist Þorsteinn ætla að taka þátt í hátíðarhöldunum. „Já ég geri nú fastlega ráð fyrir því. Það er alltaf stórkostlega gaman að fara í gönguna og verð örugglega viðstaddur líka opnunarhátíðina annað kvöld,“ segir Þorsteinn að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert