Tjaldað við Hörpu

Það væri örugglega ekki hægt að sofa mikið þarna.
Það væri örugglega ekki hægt að sofa mikið þarna. Ljósmynd/Vesna Pleticos

Einhverjir ráku eflaust upp stór augu þegar þeir áttu leið hjá Hörpu í morgun en þar hafði rauðbleiku tjaldi verið tjaldað á umferðareyju fyrir utan tónlistarhúsið.

Vesna Pleticos var meðal þeirra en hún tók mynd af tjaldinu um klukkan 9 í morgun. Hún sagðist halda að margir hefðu séð tjaldið, enda á áberandi stað og í býsna áberandi lit.

Að sögn aðstoðarmanns forstjóra Hörpu gat starfsfólk tónlistarhússins lítið gert vegna tjaldsins, enda á Harpa ekki umferðareyjuna. Hún staðfesti hins vegar að tjaldið væri farið og datt í hug að sá sem tjaldaði hefði verið að kanna hljóðmengun á þessum fjölfarna stað.

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hafði ekki heyrt af þessu ákveðna tjaldi.

Jóhann Karl aðstoðar­yf­ir­lög­regluþjónn sagði ólöglegt að tjalda nema á þar til gerðum tjaldsvæðum, nema með leyfi lóðaeiganda. Ekki lægu sektir við svona athæfi en fólki væri vísað burt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert