Heldur tónleika fyrir hundana sína

Hrefna Líf heldur tónleika í september og safnar í leiðinni …
Hrefna Líf heldur tónleika í september og safnar í leiðinni fyrir því að flytja hundana sína heim til Íslands. Ljósmynd/Hrefna Líf Ólafsdóttir

Hrefna Líf Ólafsdóttir, snappari og söngkona, heldur tónleika og safnar í leiðinni fyrir því að flytja hundana sína heim til Íslands. Hún flutti nýverið heim frá Spáni þar sem hún lagði stund á nám í dýralækningum. Hún eignaðist barn á miðju skólaári og fékk ekki undanþágu frá skólanum til þess að halda áfram.

Fékk fimm daga til að flytja heim

„Ég átti að fá að halda áfram og var búin að borga allt og svo fékk ég að vita það 5.júlí að skólinn vildi ekki gera undanþágu út af einum áfanga,“ segir Hrefna Líf í samtali við mbl.is. Hrefna eignaðist barn í miðjum prófum og þurfti sökum þess að sleppa einu prófi.

„Ég fékk fimm daga til þess að flytja heim, hafði ekki efni á því að búa á Spáni lengur þar sem ég var ekki lengur í skóla og fengi því ekki námslán,“ segir Hrefna. Maður Hrefnu, Sigurður Gunnar, var heima á Íslandi að vinna og stóð til að hún kæmi heim í 6 vikur yfir sumarið en svo fór að hún þurfti að flytja búferlum snögglega.

Hrefna eignaðist Jökul Dreka í miðjum prófum og fékk ekki …
Hrefna eignaðist Jökul Dreka í miðjum prófum og fékk ekki undanþágu frá skólanum til þess að halda áfram sökum þess að hún missti af einu prófi. Ljósmynd/Iris Bergmann

Slær tvær flugur í einu höggi

Hún brá á það ráð að halda tónleika til þess að safna fyrir þeim kostnaði sem hún þarf nú að leggja út fyrir því að flytja hundana sína þau Myrru og Frosta heim. Hrefna Líf er með um 10.000 fylgjendur á Snapchat og fann hún fyrir miklum stuðningi á meðal þeirra þar sem margir buðu fram hjálparhönd og vildu létta undir með henni fjárhagslega.

„Ég var ekki alveg tilbúin í að fá þarna kannski fleiri hundruð þúsund bara gefins,“ segir Hrefna Líf og bætir við að hún hafi lengi haft það á bak við eyrað að halda tónleika en hún hefur einnig lært söng. „Ég sá bara leið til þess að slá tvær flugur í einu höggi, halda tónleika og koma fram og um leið væri fólk að styrkja mig,“ segir Hrefna.

Talar um tabú málefni

Hrefna Líf er búin að vera á Snapchat í tvö ár og aðspurð hvernig það kom til að hún hafi svo marga fylgjendur segir Hrefna: „Það sprakk svolítið þegar ég flutti út ólétt í nám með tvo hunda. Ég tala mikið um geðhvörf og ADHD, er með það sjálf. Ég tala mikið um andleg veikindi og tabú málefni. Ég fæ líka að heyra að ég setji ekki upp glansmynd á Snapchat og fólk hafi gaman af því.“

Tónleikar Hrefnu Lífar verða í Tjarnarbíó 5. september. Frekari upplýsingar má sjá á Facebook-síðu viðburðarins.

Sigurður Gunnar, betur þekktur sem húshjálpin af Snapchat-fylgjendum Hrefnu, ásamt …
Sigurður Gunnar, betur þekktur sem húshjálpin af Snapchat-fylgjendum Hrefnu, ásamt syni þeirra Jökli Dreka og hundunum Myrru og Frosta. Ljósmynd/Hrefna Líf Ólafsdóttir
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert