Vantar 30 kennara á höfuðborgarsvæðinu

Hraunvallaskóla í Hafnarfirði. Skólinn er fjölmennur og í útjaðri höfuðborgarsvæðisins, …
Hraunvallaskóla í Hafnarfirði. Skólinn er fjölmennur og í útjaðri höfuðborgarsvæðisins, sem skólastjórinn Lars Jóhann Imsland Hilmarsson segir eiga sinn þátt í manneklunni nú. Styrmir Kári

30 kennara vantar til starfa á höfuðborgarsvæðinu nú þegar innan við tvær vikur eru þar til skólastarf hefst á ný. Á vef Reykjavíkurborgar voru í dag auglýstar 14 kennarastöður, 7 í Hafnarfirði, 3 í Kópavogi, 3 á Seltjarnarnesi, 2 í Garðabæ og þá er ein staða kennarastaða auglýst í Mosfellsbæ.

Í flestum skólanna er auglýst eftir einum kennara, þó víða vanti einnig stuðningsfulltrúa og skólaliða til starfa. Mun fleiri kennara vantar hins vegar í Hraunvallaskóla í Hafnafirði fyrir komandi skóla ár. Fimm stöður í skólanum eru auglýstar á vef Hafnafjarðarbæjar í dag,  en voru sex í gær. Þá eru þrjár kennarastöður auglýstar í Grunnskóla Seltjarnarness og tvær í Rimaskóla. Í einhverjum tilfellum er um sérkennslu- og sérfræðikennslu á borð við tónlistarkennslu að ræða.

Í minnisblaði frá skóla- og frístundasviðið Reykjavíkur má sjá að þann 1. ágúst hafi vantað í 22,7 stöðugildi kennara, 34,6 stöðugildi stuðningsfulltrúa og í 14,2 stöðugildi skólaliða hjá grunnskólum borgarinnar. Einnig vantaði þá 2 þroskaþjálfa og 2,7 í mötuneyti í skólana. Næstu tölur eru væntanlegar eftir helgi og hafa sjálfstæðismenn í borgarstjórn gagnrýnt að mannekla skóla og leikskóla hafi ekki verið rædd á fyrsta fundi skóla- og frístundaráðs, sem haldin var í gær.

Um miðjan ágúst í fyrra átti enn eftir að ráða í tæp 43 stöðugildi í grunnskólum borgarinnar.

Ófyrirséðar uppsagnir flækja stöðuna

Lars Jóhann Imsland Hilmarsson, skólastjóri Hraunvallaskóla í Hafnarfirði, segir Hraunvallaskóla hafa áður verið í þessari stöðu. „Við erum frekar stór skóli þannig að þetta eru mörg störf,“ segir hann. „Ég minnist þess að fyrir þremur árum þá vantaði átta kennara til starfa tíu dögum fyrir skólasetningu.“

Nemendur í Vatnsendaskóla. Kennara vantar nú til starfa í 30 …
Nemendur í Vatnsendaskóla. Kennara vantar nú til starfa í 30 stöður á höfuðborgarsvæðinu. mbl.is/Eggert

Spurður hvað valdi þessari stöðu hjá Hörðuvallaskóla, segir hann það vera nokkra samverkandi þætti. „Við búum við það að vera í útjaðri höfuðborgarsvæðisins og fólk vill oft vinna sem næst sínu heimili. Það vinnur aðeins á móti okkur og síðan spilar líka inn í hversu mörg störf þetta eru hjá okkur.“

Þá hafi einnig komið til ófyrirséðra uppsagna eftir að skólaári lauk. „Fólk hefur verið að segja upp í sumar af því að hefur verið að fara í önnur störf. Þannig að þegar maður hefði haldið að þetta væri komið, að þá hafa komið upp óvænt atvik sem hafa flækt stöðuna.“

Nóg framboð af kennarastörfum

Lars Jóhann segir líka hafa haft áhrif að nóg framboð sé nú af kennarastörfum. „Þannig að kennarar hafa svolítið getað valið,“ segir hann. „Þeir hafa þá geta fengið starf nær sínu heimili, eða þá að þeir hafa geta fengið kennslu við fög sem þeir hafa beðið eftir en ekki geta fengið við Hraunvallaskóla.“  Í einhverjum tilfellum hafi fólk líka mögulega viljað breyta til.

Hann kveðst þó vera þokkalega bjartsýnn á að ná að ráða í stöðurnar áður en skólahald hefst 22. ágúst. „Þetta hefur tilhneigingu til að reddast,“ segir Lars Jóhann. „Munurinn nú og fyrir þremur árum er hins vegar sá að nú eru umsóknirnar miklu færri. Þá erum við líka að ráða inn fleiri leiðbeinendur en áður.“

Útlit sé fyrir að leiðbeinendur verði 10-15% af kennarahópinum. „Hlutfallið verður þó jafnvel hærra,“ segir hann. „Ég átta mig ekki alveg á því.“

Leiðbeinendurnir séu þó vel menntaðir, að öllu jöfnu hafi þeir háskólagráður eða séu að taka kennaranámið í fjarnámi.

Líkt og áður sagði þá vantar nú fimm kennara til starfa við skólann, en ráðið var í eina stöðu í gær.  „Það eru tveir með kennaramenntun að koma í viðtal í dag og tveir með háskólamenntun. Þannig að þetta kemur hægt og rólega, en á sama tíma verður maður að vanda sig. Því maður getur ekki ráðið hvern sem er og það krefst þolinmæði.“

Hann gerir þó ráð fyrir að kennsla hefjist í öllum bekkjum á réttum tíma. „Verði ekki búið að manna stöðurnar þá er það bara staða sem við skoðum hvernig við bregðumst við rétt fyrir skólasetningu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert