Vill endurskoða búvörusamninginn

Benedikt Jóhannesson fjármálaráðherra.
Benedikt Jóhannesson fjármálaráðherra. mbl.is/Eggert

Vel kemur til greina að ríkið komi að því að leysa þann vanda sem steðjar að sauðfjárframleiðslu í landinu vegna lækkandi afurðaverðs en það verður hins vegar ekki gert á meðan að í gangi er búvörusamningur þar sem ríkið stuðlar að offramleiðslu og þar með lágu afurðaverði.

Þetta segir Benedikt Jóhannesson, fjármála- og efnahagsráðherra, í aðsendri grein í Viðskiptablaðinu í dag. Segir hann búvörusamning sauðfjárbænda vera vandann. „Því fyrr sem forsvarsmenn bænda fallast á að breyta honum, þannig að framleiðslutengingum sé hætt, því fyrr er hægt að finna lausn þeim vanda sem blasir við.“

Ráðherrann segir að víða um lönd sé rekin jákvæð byggðastefna. Jákvætt sé fyrir samfélagið að fólk vilji búa víðar en í Reykjavík. Þannig sé til dæmis hægt að byggja upp ferðaþjónustu og ýmis konar iðnað tengdan sjávarútvegi víða um landið. 

„Það er aftur á móti afleit stefna þegar ríkið borgar fyrir eitthvað sem er óskynsamlegt, til dæmis að framleiða meira á markað sem er mettaður,“ segir Benedikt og ennfremur að það væri slæm ráðstöfun á skattfé að finna skammrímalausn á vanda sauðfjárbænda án þess að taka á rót vandans sem væri búvörusamningurinn.

Viðreisn, flokkur Benedikts, hefur þá stefnu í landbúnaðarmálum að stuðningi við bændur verði breytt þannig „að aukinni hagræðingu, framleiðniaukningu og nýsköpun í greininni.“ Bændur fái frelsi til þess að vinna og markaðssetja afurðir sínar sjálfir og stiðla að innri samkeppni í greininni.

„Allri framleiðslu- og sölustýringu af hálfu ríkisvaldsins á að hætta en í staðinn verði veittir beinir styrkir til bænda í formi búsetu- og svæðisstyrkja,“ segir ennfremur. Þá er kveðið á um afnám tolla og innflutningshafta á landbúnaðarvörum í áföngum og að ýtt verði undir hluti eins og skógrækt og vöruþróun með stuðningi ríkisins.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert