„Þurfum að fylgjast með fólkinu“

mbl.is/Kristinn Magnússon

„Tekin verður ákvörðun þegar líða tekur á daginn með framhaldið. Við þurfum að ráðfæra okkur við sóttvarnarlækna og þartilbæra aðila í þeim efnum. Við erum að sama skapi að bíða eftir niðurstöðum úr ræktunum til þess að komast að því hvað nákvæmlega er um að ræða,“ segir Styrmir Sigurðsson, yfirmaður sjúkraflutninga á Suðurlandi, í samtali við mbl.is spurður um stöðuna varðandi magakveisu sem herjað hefur á erlenda skáta sem dvöldu á Úlfljótsvatni.

Frétt mbl.is: Tugir skáta veiktust hastarlega

Skátarnir voru fluttir í fjöldahjálparmiðstöð í grunnskólanum í Hveragerði þar sem þeir dvelja nú. Hefur þeim verið skipt upp í tvennt, þá sem eru með einkenni og þá sem eru einkennalausir, og eru hóparnir aðskildir í skólanum. Þeir sem eru með einkenni eru um 60 en samtals dvelja 175 skátar í skólanum. Styrmir segir aðspurður að reiknað sé með að niðurstöður úr ræktun liggi fyrir um hádegisbilið en gengið er út frá því þangað til annað kemur í ljós að um sé að ræða nóróveiru.

„Fólkið sem er með einkenni er bara með einkenni þess að vera lasið. Það er ekki bráðveikt og þarf ekki að fara inn á sjúkrahús. Það þarf í mesta lagi vökvagjöf og síðan þarf að passa að það þorni ekki. Við verður síðan einfaldlega að fylgjast með fólkinu og passa til að mynda að það ofþorni ekki,“ segir Styrmir. Þegar niðurstöður liggja fyrir úr ræktun verði hægt að bregðast við í samræmi við það. Einkennin bendi til þess að um nóróveiru sé að ræða.

Spurður hversu lengi þurfi að halda úti fjöldahjálparmiðstöðinni segir Styrmir að sé um nóróveiru að ræða taki fólk um 1-3 sólarhringa að ná sér af henni. Enginn sé alvarlega veikur og enginn verið fluttir á sjúkrahús. Þrír leituðu sjálfir á Heilbrigðisstofnun Suðurlands en voru sendir í fjöldahjálparmiðstöðina. 

Fundað verður um stöðuna í málinu í kringum hálf ellefu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert