„Verið notað sem tilraunadýr í 9 mánuði“

Einar hefur óskað eftir því að umhverfis- og samgöngunefnd fari …
Einar hefur óskað eftir því að umhverfis- og samgöngunefnd fari í vettvangsferð í í verksmiðju United Silicon. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

„Fólk hefur verið notað sem tilraunadýr í 9 mánuði. Þetta snýst ekkert um upplifun fólksins eingöngu, að þetta sé vond lykt og menn fitji upp á trýnið, þetta snýst um líkamleg einkenni. Fólk er að kvarta undan sárindum í hálsi og það er með þrútin og rauð augu. Svo heyrði ég af astmasjúklingi áðan sem veigrar sér við að fara heim til sín í Reykjanesbæ á meðan ástandið er svona. Þetta er alveg óþolandi.“

Þetta segir Einar Brynjólfsson, formaður þingflokks Pírata og fulltrúi í umhverfis- og samgöngunefnd, sem hefur óskað eftir því að nefndin fari í vettvangsferð í kísilverksmiðju United Silicon í Reykjanesbæ eins fljótt og auðið er til að kynna sér aðstæður. Lýsingar hans hér að ofan eru byggðar á samtölum og upplýsingum frá íbúum í Reykjanesbæ. Einar segir Friðjón Einarsson, formann bæjarráðs Reykjanesbæjar, tilbúinn að taka á móti nefndinni.

Einar er viss um að verksmiðjunni verði lokað.
Einar er viss um að verksmiðjunni verði lokað. Ljósmynd/Úr einkasafni

Einar var nýbúinn að senda póstinn á nefndarfólk þegar mbl.is náði tali af honum, og hafði enn ekki fengið nein viðbrögð við innihaldi hans. Hann býst þó ekki við öðru en þau verði jákvæð, enda snúist málið ekki um pólitík. „Ég á von að því að það verði vel tekið í þetta, en ef ég fæ ekki þessari ósk minni framgengt þá fer ég bara sjálfur á staðinn.“

Hann segir markmiðið með vettvangsferðinni fyrst og fremst vera að kynnast aðstæðum eins og þær eru í raun og veru.

Hefur snúist upp í andhverfu sína

„Það voru allir mjög áhugasamir um að fá þessa verksmiðju á sínum tíma, það vantaði ekki, enda var bæjarsjóður Reykjanesbæjar líklega sá skuldsettasti í norðanverðri Evrópu og þó víðar væri leitað. Ég skil því vel að fólk hafi tekið þessari verksmiðju fagnandi. En núna er þetta farið að snúast upp í andhverfu sína. Þeir peningar sem þessi verksmiðja mun hugsanlega skila bæjarfélagið eru bara of dýru verði keyptir. Gjaldið er of hátt ef það þýðir líkamleg óþægindi.“

Einar telur víst að það komi að þeim tímapunkti að verksmiðjunni verði lokað. „Auðvitað hlýtur að koma að því að þessari verksmiðju verði lokað ef það verður ekki bundinn endir á þetta. Það er enn verið að bíða eftir niðurstöðum úr nýjustu mælingum, en stemmningin meðal íbúanna er orðin þannig að þeim fer hratt fækkandi sem vilja búa við þessi skilyrði.“

Hann segist þó ekki þekkja lagaforsendur fyrir lokun verksmiðjunnar eða hvort hvort skaðabótaskylda geti skapast. „Það er seinni tíma vandamál. Vandamálið sem við erum að takast á við núna er að fólk þurfi ekki að búa við skert lífsgæði.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert