Vilja útskrifa alla nema sex

Svæðinu í kringum Úlfljótsvatn verður lokað yfir helgina. Stefnt er …
Svæðinu í kringum Úlfljótsvatn verður lokað yfir helgina. Stefnt er að því að fara þangað aftur með skátana á sunnudagskvöld. Ljósmynd/Ragnheiður Daviðsdóttir

Byrjað er að útskrifa fyrstu hópana af skátunum sem veiktust af nóró-veiru. Hægt er að útskrifa alla nema sex manns. Enn eru þó vandræði með húsnæði fyrir þá hópa þar sem Úlfljótsvatn er lokað. Þetta segir Hermann Sigurðsson framkvæmdastjóri BÍS. 

Stefna aftur á Úlfljótsvatn á sunnudag

„Við munum nýta tímann fram á sunnudagskvöld að sótthreinsa og stefnum á að opna Úlfljótsvatn aftur á sunnudagskvöld,“ segir Hermann í samtali við mbl.is. Byrjað er að útskrifa fyrstu hópana af þeim sem voru veikir en verið er að ræða hvar á að koma þeim fyrir.

„Þetta er svolítið skammur tími að okkur finnst að útskrifa þau svona snemma, en við getum ekkert gert í því. Okkur vantar húsnæði til að taka við þeim,“ segir Hermann. Hluti af hópnum fer heim á morgun og fleiri á sunnudag. Meirihlutinn verður þó hér fram á miðvikudag og er stefnan að sá hópur fari aftur á Úlfljótsvatn á sunnudag.

Eru með belti og axlabönd

„Aftur á móti erum við mjög varkár og við til dæmis látum aðila drekka úr flöskum ef við sendum hóp á sunnudaginn en ekki úr krönunum. Þangað til við fáum staðfestingu á að þetta sé ekki þaðan. Við erum með belti og axlabönd í öllu sem við gerum,“ segir Hermann.

„Við erum að fá aðra gesti í kvöld á lítið skátamót og stefnan er að það verði haldið í Hafnarfirði,“ segir hann.

Uppfært kl. 18.20: 

Í tilkynningu frá BÍS kemur fram að skátarnir séu á góðum batavegi. Langflestir muni útskrifast í kvöld eða á morgun.

Búið er að senda skátana sem ekki veiktust í Garðyrkjuskóla ríkisins í Hveragerði og skátaheimilið í Hveragerði.

Skátarnir sem veiktust munu hins vegar búa áfram í grunnskólanum í Hveragerði fram á sunnudag. Það voru alls 63 erlendir skáta sem sýktust af Nóró veirunni. Fylgst verður með skátunum áfram og gripið til aðgerða ef vart verður við einkenni að nýju.

Hermann Sigurðsson segir í tilkynningunni að Bandalagið harmi þennan atburð en segist vera ánægður hve skjótt var brugðist við og að allir skátarnir sem sýktust muni ná sér að fullu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert