Ók í veg fyrir 12 bifhjól

Miklar tafir urðu á umferð vegna slyssins.
Miklar tafir urðu á umferð vegna slyssins. mbl.is/Kristján Johannessen

Ökumaður bifhjóls var fyrr í dag fluttur með þyrlu Landhelgisgæslunnar á sjúkrahús í Reykjavík eftir bílslys á Suðurlandsvegi, rétt vestan við afleggjarann að Biskupstungnabraut. Þetta staðfestir varðstjóri hjá lögreglunni á Suðurlandi í samtali við mbl.is. Slysið átti sér stað um klukkan tvö í dag.

Slysið varð með þeim hætti að bíll sem var á leið austur tók upp á því að snúa við á rampi sem umferðardeild lögreglu notar til að vigta bíla í þungaflutningum. Ökumaður bílsins virðist ekki hafa tekið eftir 12 bifhjólum sem óku saman í austurátt og keyrði hann í veg fyrir fremsta hjólið. Ökumaður bifhjólsins kastaðist af hjólinu og slasaðist töluvert.

Var hann fluttur með þyrlu Landhelgisgæslunnar til Reykjavíkur. Að sögn varðstjóra er líðan hans eftir atvikum, hann var með meðvitund og líklega fótbrotinn, en ekki er vitað um önnur meiðsli.

Tvö hjól til viðbótar féllu einnig í götuna, en ökumenn þeirra slösuðust ekki. Ökumann bílsins sakaði þá ekki.

Suðurlandsvegi var lokað um tíma vegna slyssins og löng bílalest myndaðist undir Ingólfsfjalli að Hveragerði. Vegurinn var opnaður aftur um fjögurleytið og hreinsunarstarfi á slysstað er lokið.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert