Nær tvöfalt meira áhorf

Fleiri leikir voru sýndir í beinni útsendingu á aðalrás Ríkisútvarpsins …
Fleiri leikir voru sýndir í beinni útsendingu á aðalrás Ríkisútvarpsins í ár, eða 21 talsins miðað við 14 leiki árið 2013. AFP

Áhorf á leiki Evrópumóts kvenna í knattspyrnu í Hollandi var talsvert meira en á Evrópumótinu fyrir fjórum árum í Svíþjóð. Niðurstöður rannsókna Ríkisútvarpsins sýna að áhorf á leiki íslenska kvennalandsliðsins tæplega tvöfaldaðist frá síðasta móti. Þegar leikir Íslands fóru fram var rétt um 35% meðaláhorf á leikina. Til samanburðar var meðaláhorfið tæplega 20% árið 2013.

Valgeir Vilhjálmsson, markaðsrannsóknarstjóri RÚV, segir áhorf á leiki Íslands hafa verið mælt frá því leikurinn hófst allt þar til yfir lauk að hálfleiknum meðtöldum, en í öðrum leikjum mótsins var áhorfið mælt frá því upphitun liðanna hófst þar til uppgjöri EM-stofunnar lauk.

Mælingin sýnir að talsvert minna áhorf var á aðra leiki en Íslands í mótinu, en þrátt fyrir það var um 13% aukning meðaláhorfs á þá leiki frá árinu 2013. Heildaráhorf á leiki mótsins að meðtöldum leikjum Íslands jókst því samtals um 18%.

Mest var meðaláhorfið á leik Englands og Frakklands eða um 16,9% en minnst á leik Ítalíu og Rússlands eða einungis um 2,8%.

Ýmsar ástæður fyrir aukningu

Spurður hvernig standi á jafnmikilli aukningu og raun ber vitni segir Valgeir ýmsar ástæður geta legið að baki.

„Við sýndum leiki á RÚV og RÚV 2 bæði árið 2013 og 2017 en þeir fengu mun meira áhorf nú en síðast. Það eru sennilega nokkrar ástæður fyrir því; gott gengi strákanna í fyrra, mótið var talsvert betur kynnt en fyrri mót og mun fleiri fyrirtæki tóku þátt í umstanginu í kringum það. Síðan er fótboltinn auðvitað orðinn miklu betri en hann var fyrir nokkrum árum,“ segir Valgeir og bætir við að fleiri leikir hafi verið í beinni útsendingu á aðalrás Ríkisútvarpsins í ár eða 21 talsins miðað við 14 leiki árið 2013.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert