Skátarnir fegnir að komast út í sólina

Sex skátar eru enn veikir og verður áfram haldið í …
Sex skátar eru enn veikir og verður áfram haldið í sóttkví. mbl.is/Ófeigur

„Við erum að undirbúa hádegismat fyrir fólkið okkar í fjöldahjálparstöðinni og erum að útskrifa alla þá sem hafa verið einkennalausir síðustu átta tíma. Það verða þá sex eftir í húsi þegar sá hópur fer,“ segir Fjóla Einarsdóttir, svæðisfulltrúi Rauða krossins á Suðurlandi, um ástandið á skátunum sem veiktust af nóró-veirunni á Úlfljótsvatni á fimmtudagskvöld.

181 skáti á aldrinum 9 til 25 ára voru í kjölfarið fluttir í fjöldahjálparstöð sem sett var upp í grunnskólanum í Hveragerði. Alls sýndi 71 skáti einkenni, en sá yngsti sem veiktist var 9 ára. Flestir sem veiktust voru börn og unglingar.

Fjóla segir þá sem enn eru veikir vera mjög slappa. „Þessi veikindi eru uppköst og niðurgangur þannig þau eru mjög slöpp, en það er enginn lífshættulega veikur. Það eru allir á batavegi en það er regla að það fer enginn út fyrr en hafa verið í átta tíma einkennalaus.“

Hópurinn sem verið er að útskrifa núna er mjög brattur miðað við aðstæður að sögn Fjólu. „Þau eru mjög fegin að komast út í sólina. Þau ætla að fá sér frískt loft, hitta hópinn, tala saman og hafa það kósí.“

Nú er unnið að því að finna húsnæði fyrir þá sem orðnir eru einkennalausir og þrif eru hafin á grunnskólanum. „Þetta er bara austurálman sem er lokuð. Það hefur enginn farið þar inn eða út nema heilbrigðisstarfsfólk. Allir þeir veiku komu inn um annan inngang en þeir ósýktu. Þannig það hefur verið einangrað mjög vel. Það hve fljótt var tekið á málum hefur væntanlega komið í veg fyrir að fleiri smituðust,“ segir Fjóla.

Starfsfólk Rauða krossins, um 30 manns, hefur unnið dag og nótt við að aðstoða skátana, en Fjóla segir vaktaskiptin hafa verið mjög skipulögð svo allir hafi náð að sofa eitthvað. Enginn af sjálfboðaliðunum hefur sýnt einkenni nóró-veirunnar enda allir í hlífðarbúningum með hanska og grímur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert