Sprengir vikulega dekk á veginum

Hér má sjá skiltið góða sem Þorsteinn útbjó.
Hér má sjá skiltið góða sem Þorsteinn útbjó. Ljósmynd/Hrafnhildur Inga Sigurðardóttir

„Vegurinn hefur aldrei verið verri en núna, það springur hjá mér dekk svona einu sinni í viku. Ég verð líka var við olíuleka úr bílum sem keyra veginn. Það er ömurlegt að horfa upp á það. Ég hef sjálfur gatað tvo af mínum bílum.“

Þetta segir Þorsteinn Guðjónsson, bóndi á Rauðuskriðum, um Dímonarveg (250) sem liggur á milli þjóðvegar 1 og Fljótshlíðarvegs meðfram Markarfljóti. Dímonarvegur liggur einnig framhjá Rauðuskriðum og Þorsteinn þarf því að keyra veginn ætli hann að komast heim og að heiman.

„Ég hef oft þurft að hjálpa fólki sem hefur farið veginn. Til dæmis við að klára að rífa pústkerfi sem fólk hefur misst undan bílum, eða hengja þau upp. Ég hef líka bjargað fólki sem leitar til mín með dekk.“

Verður að setja í veginn eða loka honum

Þorsteinn var orðinn langþreyttur á ástandi vegarins og aðgerðarleysi Vegagerðarinnar í lok síðustu viku þegar hann brá á það ráð að setja upp skilti við veginn þar sem ferðamenn eru hvattir til að hringja í Vegagerðina eða senda tölvupóst finnist þeim vegurinn slæmur.

Hann segir þó ekki standa til að hafa skiltið lengi við veginn, en eitthvað varð hann að gera. „Ég var að vona að ég fengi einhverja hjálp. Ef maður gerir ekki neitt þá gerist ekki neitt.“ Sjálfur hefur hann verið duglegur að hringja í Vegagerðina og kvarta yfir ástandinu, en hefur gefist upp á því. Segir það einfaldlega ekki þýða neitt.

Þorsteinn segir ástandið á veginum hafa verið mjög slæmt síðustu tvö, þrjú árin, en það hafi aldrei verið verra. Hann segir lítið þýða að hefla veginn eins og hann er núna, enda sé allt efni fokið úr honum. „Þeir hefluðu tvisvar núna í vor og reyndu að rífa upp kantana til að ná efni sem hefur fokið úr veginum. Þá varð hann alveg hræðilegur, en við þurftum að keyra hann þannig. Svo reyndu þeir að valta en ekki nema hluta af veginum. Sögðu að það vantaði rigningu til að bleyta hann. Aðal vandamálið er samt að efnið í veginum er of gróft. Fína efnið er löngu fokið burt. Ef þeir hefla þá er kominn malarhryggur á veginn eftir viku. Hann er að skemma bílana. Það verður annað hvort að loka veginum eða setja í hann efni.“

Smella má á kortið til að þysja inn og út.
Smella má á kortið til að þysja inn og út. Kort/map.is

Umferð ferðamanna hefur aukist mikið

Þorsteinn telur veginn vera með þeim verstu á Íslandi og varla hæfan til keyrslu. Fyrir ekki svo löngu lét hann sig dreyma um að fjárfesta í nýlegum bíl en sá fljótlega að það gengi á meðan vegurinn væri svona. Hann hefur því haldið sig við gömlu drusluna sem virðist þola ýmislegt, þó dekkin fái slæma útreið.

„Grjótið í veginum er svo gróft að steinarnir eru allt að 20 sentimetrar í þvermál. Sumir bílar eru ekki einu 20 sentimetra háir.“

Þorsteinn segir aðgerðarleysi Vegagerðarinnar einstaklega bagalegt í ljósi þess að umferð um veginn hefur aukist mikið síðustu ár. „Það er mjög mikil umferð um veginn, sérstaklega á sumrin. Fólk fer þennan veg til að komast nær jöklinum. Umferðin jókst mikið eftir gosið í Eyjafjallajökli. Fólk vill keyra þennan hring,“ útskýrir hann.

Algengt er að ferðamenn komi við á bænum hjá Þorsteini og spyrji hvort vegurinn sé allur jafn slæmur, eða hvort hann skáni. Vegurinn er í heildina um 12 kílómetrar, en Þorsteinn segir fólk varla keyra hann á meira en 20 kílómetra hraða á köflum. Hann bendir á að vegurinn sé ekki bara erfiður yfirferðar og skemmi bíla, heldur geti hann verið beinlínis hættulegur. „Ég sé mjög oft hjólför út fyrir veginn þar sem menn hafa misst bílana, en það er svolítið síðan bíll hefur oltið þarna. Það hefur þó gerst. Í fljótu bragði man ég hefur þremur tilfellum.“

Fjármagn dugir ekki til viðhalds

G. Pétur Matthíasson, upplýsingafulltrúi Vegagerðarinnar, segist í samtali við mbl.is ekki kannast við að fleiri kvartanir en áður hafi borist út af Dímonarvegi eftir að skiltið var sett upp. Hann kannast þó við kvartanir Þorsteins og er meðvitaður um ástand vegarins. „Það er eins með þennan malarveg og marga aðra, að þeir eru í bágbornu ástandi. Fólki finnst ástandið oft verst heima hjá sér.“ Honum finnst engu að síður ólíklegt að Þorsteinn sprengi dekk vikulega, vegurinn sé ekki það slæmur.

„Við höfum takmarkað fé í malarvegina og það er forgangsraðað eftir ýmsum forsendum. Það dugir ekki til að viðhalda þeim eins og við myndum vilja hafa þá. Þessum vegi, eins og öðrum, er sinnt eins og hægt er.“

Hann segir aukna umferð ferðamanna um ákveðin svæði vissulega hafa áhrif og stundum þurfi að forgangsraða upp á nýtt vegna breyttra forsendna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert