Syntu saman Drangeyjarsund

Sigrún Þuríður og Harpa Hrund.
Sigrún Þuríður og Harpa Hrund. Ljósmynd/Jóhannes Jónsson

Sjósundskonurnar Harpa Hrund Berndsen og Sigrún Þuríður Geirsdóttir syntu Drangeyjarsund í dag. Sundið felst í því að synda um 7 kílómetra leið frá Drangey að Reykjanesi á Reykjaströnd án þess að klæða kuldann af sér, en sjórinn á þessum slóðum er frekar kaldur.

Þegar þær syntu var hitastig sjávar á bilinu 9,5 - 10,5 gráður, en frá þessu er sagt á fréttavefnum Feyki.

Segir þar að Harpa og Sigrún hafi lagt af stað frá Drangey klukkan 8.20 í morgun í 3 stiga hita og þó nokkrum öldum, umkringdar hvölum sem voru að sýna listir sýnar.

„Fljótlega lægði þó og hlýnaði og gekk sundið mjög vel. Sigrún Þuríður og Harpa Hrund eru ekki ókunnar sjósundi en Sigrún synti yfir Ermarsundið 2015 og báðar hafa þær synt boðsund þar yfir.“

Sigrún Þuríður mun vera fimmta konan til að synda Drangeyjarsund en sundtími hennar var 3 klst. og 29 mínútur. Harpa Hrund er þá sjötta konan til að ljúka sundinu en tími hennar var 4 klukkustundir og 15 mínútur.

Björgunarsveitirnar á Sauðárkróki og Hofsósi fylgdu þeim yfir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert