Tugir þúsunda knúsast á Fiskideginum

Mikil stemning hefur skapast í kringum Fiskidaginn mikla.
Mikil stemning hefur skapast í kringum Fiskidaginn mikla. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

„Þetta er ólýsanlegt. Veðrið er algjörlega „gordjöss“ og stemmningin alveg frábær. Það er allt eins og það á að vera. Menn eru svo þakklátir fyrir veður, góða umgengni og það hvernig fólk hagar sér. Fólk bara líður um, nýtur yfir 20 rétta á matseðlinum og endalausra skemmtiatriða.“

Þannig lýsir Júlíus Júlíusson, framkvæmdastjóri Fiskidagsins mikla á Dalvík, stemningunni í bænum í samtali við mbl.is. Hann telur að um 28 til 30 þúsund gestir séu á hátíðinni, svipað og síðustu ár.

„Menn eru bara komnir hingað til að skemmta sér. Við hefjum alltaf hátíðina á klukkutíma dagskrá þar sem línurnar eru lagðar fyrir helgina. Þar eiga allir að knúsast og ef einhver mál koma upp þá á að leysa þau með knúsi eða faðmlagi. Við sáum það á súpukvöldinu í gærkvöldi að það var greinilega að virka. Það voru tugir þúsunda að knúsast“ segir Júlíus sem vonar að fólk muni haga sér þannig áfram.

„Það eru allir að gefa eitthvað og þegar fólk fær allt frítt þá fer það í annan fasa. Það eru engir sölumenn að áreita það.“

Aðspurður hvort aukin öryggisgæsla, sem boðuð hafði verið, hafi haft einhver áhrif á hátíðarhöldin segir Júlíus svo ekki vera. Hann segir gæsluna í raun ekkert meiri en áður.

„Gæslan hjá okkur er eiginlega bara nákvæmlega eins og áður þó það hafi farið af stað umræða um að hún hefði verði aukin. Það hafa oft verið sérsveitarmenn til taks hjá okkur. Þeir ganga ekki um með vopn, þeir eru bara með vopn í bílunum og eru til staðar. Ég hef ekki séð þá einu sinni. Við höfum átt gríðarlega gott samstarf við lögreglu og allt hefur gengið vel.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert